138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[17:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var svo sem ágætt. Ég get ekki spurt hv. þingmann aftur en kannski kemur hann hingað upp í umræðu. Málið er að til þess að kanna hvort eignarhlutur sé virkur þarf maður að vita hver á hann. Ef um er að ræða langa keðju fyrirtækja sem endar t.d. í Tortóla eða Lúxemborg, svo maður nefni þau ósköp, og enginn veit hver á getur verið erfitt að framfylgja því og vita hvort það sé virkur eignarhlutur. Þá er spurning hvort þar þurfi að koma inn einhvers konar ákvæði um að eignarhlutur sem ekki er þekktur vegna þess að hann er dulinn í útlöndum fái þá ekki arðs- eða atkvæðisrétt eða eitthvað slíkt.

Varðandi gagnkvæmu vátryggingafélögin er það ekki ágalli hvernig átti að slíta þeim heldur var það ágalli í framkvæmd að á hverju ári átti að endurgreiða hluta af iðgjaldinu ef tjónið varð minna en áætlað var. Því gleymdu menn af einhverjum ástæðum, sennilega af því að þá langaði ekki til að endurgreiða. Ef þeir hefðu gert það hefði inneign hinna vátryggðu ekki safnast upp hjá gagnkvæmu vátryggingafélögunum. Segja má að það hafi orðið til þess að hér er lagt til að þau verði felld niður en þau geta verið alveg ágæt. Mér skilst að innlánstryggingarsjóður Breta sé unninn með þessum hætti, að þegar meira tjón verður en ætlað er leggja þeir bara á alla bankastarfsemi í landinu. Innlánsfyrirtæki í því landi hafa viðbótarálag í nokkur ár til þess að ná upp tapinu þannig að segja má að þar sé gagnkvæmt tryggingafélag varðandi tap á innstæðum.