138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[17:57]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir innlegg hennar og nefndarálit. Ég er sammála henni um þá nálgun sem hún hefur, að ákveðinn skortur er á pólitískri langtímastefnumótun í löggjöf hér á landi, eins og við sjáum glögglega í títtnefndri rannsóknarskýrslu.

En gleymum því ekki að slíkt tekur langan tíma og það er nú þess vegna sem ég er hingað kominn til að leggja áherslu á það, en þetta frumvarp hefur margt jákvætt í för með sér og tekur á fjölmörgum mikilvægum þáttum eins og t.d. mikilvægi góðra viðskiptahátta sem verið er að fjalla um hér. Hér er verið að taka á því þegar menn hafa veitt lán með veð í eigin hlutabréfum, hér er verið að skerpa á hæfisskilyrðum stjórnarmanna, hér er verið að taka á málefnum starfandi stjórnarmanna, hér er verið að taka á málefnum sem snerta kauprétt og kaupauka, hér er verið að taka á málefnum endurskoðenda, hér er verið að hnykkja á heimildum Fjármálaeftirlitsins. Í þessu frumvarpi erum við að styrkja reglur um innra eftirlit, innri endurskoðun, fjárfestingar tryggingafélaga, lánveitingar, viðskipti tengdra aðila og hér erum við að breyta viðurlögum. Í þessu plaggi erum við með fjölmarga jákvæða þætti sem við megum ekki láta falla niður þrátt fyrir að við teljum að til lengri tíma þurfi stefnumótun. Það er nokkur skortur á stefnumótun hvað varðar lög um fjármálafyrirtæki og vátryggingastarfsemi því að þessir geirar eru vel tengdir.

Ég lít svo á að þetta frumvarp sé fyrsta skrefið af mörgum sem þarf að taka við endurskoðun á þessari löggjöf. Afrakstur vinnu þingmannanefndarinnar og almenn umræða í samfélaginu, t.d. meðal hagsmunaaðila sem að þessu máli koma, mun svo smátt og smátt móta þann farveg sem við teljum hyggilegastan. Þetta frumvarp má hins vegar ekki bíða vegna þess að eins og ég hef rakið hefur það fjölmarga jákvæða þætti í för með sér.