138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[18:08]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að ég sé ekki fyrsta manneskjan til að viðurkenna það í ræðustól að margt fór úrskeiðis varðandi rekstur sparisjóðanna. Það var mjög margt sem fór úrskeiðis í rekstri Samvinnuhreyfingarinnar á Íslandi. (Gripið fram í.) Við skulum bara viðurkenna það að menn villtust af leið, þeir hættu að vita hvað samvinnufélög og sameignarfélög stóðu fyrir, að þetta væru sameignarfélög, að þetta væru félög til almannaheilla.

Þess vegna nefni ég hlutafélagavæðinguna. Fjölmargir sparisjóðir voru á fullri ferð í því að verða hlutafélög. Í öðrum tilvikum voru það stofnfjáreigendur sem voru að berjast fyrir því eða tryggja það að einhverjir einstaklingar kæmu ekki inn og keyptu menn út með þvílíkum tilboðum — þeir sitja núna uppi með alveg gífurlega háar skuldir af því að þeir vildu gjarnan halda sínum sjóði í sínu byggðarlagi.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal talar síðan um að þetta snúist allt um sérhagsmuni og gróða, líka í þessum tegundum af félögum. Þá ætla ég aðeins að fá að vitna í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, maður getur vitnað endalaust í hana. Það er mjög áhugaverð grein sem ég mæli með að fólk lesi þó að það lesi ekki neitt annað í skýrslunni. Hún er eftir doktor Huldu Þórisdóttur þar sem hún fjallar um aðdraganda og orsakir efnahagshrunsins á Íslandi frá sjónarhóli kenninga og rannsókna í félagsfræði og sálfræði. Þar bendir hún á að fjöldi rannsókna hafi sýnt að fólk er drifið áfram af mun fleiri hvötum en eiginhagsmunum og ekki hvað síst af sanngirni. Það er hins vegar mjög auðvelt að ýta undir eiginhagsmuni einstaklinga og búa til kerfi sem hvetur til sérhyggju og ósanngirni.

Ég hef því miður ekki tíma til að vitna í þetta en þetta er eitt af því sem ég ætla að fjalla aðeins um í nefndaráliti mínu um löggjöf um fjármálafyrirtæki.