138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[18:41]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Frú forseti. Ég ætla í framsögu minni að draga fram nokkra þætti sem ég vil vekja athygli á í þessu frumvarpi og þessu nefndaráliti eins og það kemur frá viðskiptanefnd eftir ítarlega vinnu fulltrúa allra aðila í nefndinni. Ég held að samstarf okkar hafi tekist ágætlega.

Þetta frumvarp á sér nokkra forsögu og er uppruni þess í nefnd sem viðskiptaráðherra skipaði árið 2007. Þegar vinna hófst við innleiðinguna var talið að ekki yrði komist hjá því að endurskoða lögin í heild enda þyrfti að gera ýmiss konar breytingar. Þetta frumvarp var svo lagt fram á 136. og 137. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu úr nefnd, það fór hins vegar í ítarlegar umsagnir, þannig að það hefur tekið miklum breytingum. Ég tel að það þýði að tekist hafi að koma til móts við fjölmörg sjónarmið, bæði fulltrúa atvinnulífsins og margra stjórnmálaflokka.

Hér er lagt til að íslensk vátryggingafélög skuli rekin sem hlutafélög og ljóst að verði frumvarpið að lögum fellur á brott heimild gildandi laga til að reka vátryggingafélag sem gagnkvæmt félag. Með afnámi heimildar til að stofnsetja gagnkvæmt vátryggingafélag er hins vegar ekki verið að skerða réttinn til að gefa kost á því að standa að stofnun slíks félags. Hins vegar er ekki talin ástæða til að viðhalda í lögum ónýttum heimildum enda ákveðnir vankantar á formi um gagnkvæmt félag.

Meiri hlutinn telur brýnt að löggjöf um vátryggingastarfsemi verði endurskoðuð komi í ljós að áhugi sé fyrir því að koma á fót gagnkvæmum vátryggingafélögum. Það er alveg ljóst að gagnkvæma félagsformið dugar vart á markaði þar sem virk samkeppni er, en gagnkvæm vátryggingafélög eiga í erfiðleikum ef þau þurfa að bæta fjárhagsstöðu sína því þau geta ekki líkt og hlutafélög aukið fé fyrirtækisins með útgáfu nýrra hlutabréfa.

Gagnkvæma félagsformið virðist einkum henta þegar um sérhæfða vátryggingu er að ræða í takmörkuðum rekstri. Þá erfiðleika sem gagnkvæmu vátryggingafélögin lentu í hér á landi má fyrst og fremst rekja til vandræða þeirra við að hlúa að fjárhagslegum styrk sínum á samkeppnismarkaði.

Í áliti 1. minni hluta segir, með leyfi frú forseta:

„Bent er á að með reglum um gjaldþol og afnám einkaréttar hafi löggjafinn markvisst gert rekstur gagnkvæmra tryggingafélaga nær ómögulegan. Einnig er bent á að gagnkvæm tryggingafélög eigi í erfiðleikum ef þau þurfa að bæta fjárhagsstöðu sína þar sem þau geti ekki líkt og hlutafélög aukið eigið fé félagsins með útgáfu nýrra hlutabréfa.“

Svo segir:

„Lausnin á þessu er því að banna gagnkvæm vátryggingafélög í stað þess að bæta rekstrar- og lagaumhverfi þeirra.“

Þarna er eilítið rangt farið með. Hér er ekki verið að banna gagnkvæm vátryggingafélög en í áliti 1. minni hluta má lesa að svo virðist sem aðilar séu spenntir fyrir því að gefa annaðhvort afslátt af gjaldþolsviðmiðinu, þ.e. að gera minni fjárhagslegar kröfur til gagnkvæmra vátryggingafélaga, sem ég tel að sé ekki skynsamlegt, eða hugsa um einkarétt fyrir gagnkvæm vátryggingafélög á ákveðnum markaðssvæðum eða markaðshlutum, sem ég tel heldur ekki skynsamlegt.

Að óbreyttu virðist sem gagnkvæma tryggingaformið eigi undir högg að sækja vegna þess að fyrirtæki sem starfa með slíkum hætti eiga í of miklum fjárhagslegum erfiðleikum til að geta staðið í samkeppni og mér finnst að við eigum ekki gefa afslátt af gjaldþolinu.

Í þessu frumvarpi eru fjölmörg jákvæð atriði sem ég vil draga fram. Við leggjum til að Fjármálaeftirlitið hafi heimild til að grípa til ráðstafana telji það starfsemi eftirlitsskylds aðila ekki vera í samræmi við góða viðskiptahætti eða venjur. Vonandi erum við hér að styrkja slagkraft Fjármálaeftirlitsins til að grípa inn í ef það telur ástæðu til. Við erum einnig að gera óheimilt að vátryggingafélag geti veitt lán með veði í eigin hlutabréfum eða skuldabréfum. Það á sér samsvörun í lögum um fjármálafyrirtæki en á vettvangi nefndarinnar höfum við unnið þessi tvö frumvörp þétt saman enda eru þau um margt lík.

Við erum hér að skerpa á öðrum hæfisskilyrðum stjórnarmanna, svo sem fjárhagsstöðu, menntun, starfsreynslu og starfsferli. Við kveðum á um að stjórnarmenn og framkvæmdastjórar skuli hafa lokið háskólaprófi sem nýtist í starfi en leggjum jafnframt til að Fjármálaeftirlitið geti veitt undanþágu frá menntunarkröfum á grundvelli reynslu eða þekkingar viðkomandi.

Við leggjum einnig til þrengri heimildir til stjórnarsetu í öðrum félögum og leggjum til að óheimilt sé að hafa starfandi stjórnarformann í vátryggingafélagi. Við fjöllum eilítið um kauprétt og kaupaukagreiðslur en svo virðist sem kaupaukakerfið á fjármálamörkuðum á liðnum árum hafi haft þau áhrif að áhættusækni hafi aukist og of mikil áhersla verið á skammtímasjónarmið. Hér tökum við eilítið á því, sem og í reglum um fjármálafyrirtæki. Meira um það síðar.

Þá horfum við til endurskoðenda og endurskoðunarfélaga og leggjum til að skipta eigi um endurskoðunarfélag á fimm ára fresti en ekki einungis endurskoðanda. Þá leggjum við til viðbót þess efnis að endurskoðendur og endurskoðunarfélög skuli kjörin á aðalfundi til fimm ára þannig að ráðningarsambandið sé til fimm ára.

Ég hef áður rakið hér góða viðskiptahætti og venjur sem eru nú í 6. gr. frumvarpsins en að lokum má segja að hér leggjum við til breytingar, en við í meiri hluta viðskiptanefndar og að ég held allri nefndinni lítum svo á að hér sé einungis um að ræða fyrsta skrefið í endurskoðun reglna á sviði fjármálamarkaðar og vátryggingastarfsemi en þessir markaðir eru nátengdir.

Við í meiri hlutanum teljum brýnt að unnið verði að pólitískri stefnumótun varðandi framtíðarskipulag fjármálamarkaðs og vátryggingamarkaðs á Íslandi, m.a. í ljósi niðurstaðna rannsóknarnefndar Alþingis.

Eins og kom fram áðan þá eru fjölmörg jákvæð atriði í þessu sem vert er að taka fram. Við töldum því rétt að fresta ekki þessu frumvarpi heldur ná því í gegnum Alþingi á þessu vorþingi en leggjum jafnframt áherslu á að vinnunni er ekki lokið.

Ég vil að lokum þakka nefndarmönnum samstarfið. Ég held að það hafi tekist ágætlega hjá okkur að vinna þetta í sátt og samlyndi. Vinnubrögð hafa verið til fyrirmyndar undir styrkri stjórn formannsins, Lilju Mósesdóttur.