138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[19:44]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um vátryggingastarfsemi. Frumvarpið felur í sér ný heildarlög um vátryggingastarfsemi. Gildandi lög eru frá 1994 og hefur verið breytt alloft síðan. Frumvarpið er samið af nefnd sem viðskiptaráðherra skipaði 18. september 2007 með það að markmiði að innleiða tilskipun Evrópusambandsins frá 2005 um endurtryggingar. Þegar vinna hófst við innleiðinguna kom í ljós að ekki yrði hjá því komist að endurskoða lögin í heild svo oft hafði verið farið í smábreytingar og einnig þurfti að leiðrétta hluta innleiðinga sem ekki höfðu komist rétt til skila.

Frumvarpið á bæði við um frum- og endurtryggingarstarfsemi eins og gildandi lög. Einungis má frumtryggja hjá vátryggingafélögum sem hafa starfsleyfi hér á landi en endurtryggingar má stunda á grundvelli starfsleyfis í heimaríki annars staðar í Evrópusambandinu. Ef um er að ræða endurtryggingavernd á frumtryggingaráhættu skal liggja fyrir samstarfssamningur milli Fjármálaeftirlitsins og eftirlitsstjórnvalds í heimaríki endurtryggingarfélags.

Þá er í frumvarpinu lagt til að íslensk vátryggingafélög skuli rekin sem hlutafélög og að heimildaákvæði um gagnkvæm tryggingafélög verði afnumin í bili a.m.k. á meðan félagaforminu verða settar skýrari reglur um fjárhag og slit. Félagasamtök eða aðrir sem taka sig saman geta eftir sem áður staðið að stofnun vátryggingafélags. Frumvarpið skýrir betur en áður hefur verið gert hlutverk og skyldur eftirlitsaðilans sem hér er Fjármálaeftirlitið sem fær nú vopn til að beita ef hagsmunir neytenda eru ekki hafðir að leiðarljósi og viðskiptahættir eftirlitsskyldra aðila teljast ekki vera í samræmi við heilbrigða og góða viðskiptahætti. Þá er gert ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið veiti vátryggingafélagi starfsleyfi og aðili sem hyggst eignast virkan eignarhlut í vátryggingafyrirtæki þarf að tilkynna það til Fjármálaeftirlitsins. Tekið er fyrir það að vátryggingafélag geti veitt lán með veði í eigin hlutabréfum eða skuldabréfum.

Talsverðar breytingar eru lagðar til á ákvæði um stjórn vátryggingafélaga. Lagt er til að stjórn setji sér reglur um innra eftirlit, innri endurskoðun, fjárfestingarstarfsemi, lánveitendur og viðskipti við tengda aðila. Þessar reglur þarf Fjármálaeftirlitið síðan að staðfesta. Gerðar eru auknar kröfur til stjórnarmanna og framkvæmdastjóra um mannorð, menntun, starfsreynslu og fjárhagsstöðu. Fjármálaeftirlitið mun setja nánari reglur um hvernig skuli staðið að hæfismati þessara aðila.

Fram kom í störfum nefndarinnar að að einhverju leyti eru skilin á milli hlutverka Neytendastofu og Fjármálaeftirlitsins óskýr og var um það rætt að nauðsynlegt væri að fara í þá vinnu sem þarf á vegum ráðuneytisins til að skýra þessi skil svo neytendur viti hvert þeir eiga að leita með úrlausnarmál sín svo og hvers það er að skilgreina heilbrigða og góða viðskiptahætti og fylgja þeirri skilgreiningu eftir.

Talsvert var rætt um kaupaukakerfi og starfslokasamninga starfsmanna vátryggingafyrirtækja á svipuðum nótum og rætt hefur verið í tengslum við frumvarp um fjármálafyrirtæki. Hefðir tryggingafélaganna í tryggingasölu hafa verið þannig að sölulaun hafa myndað stærstan hluta launa og hæpið að kalla það kaupaukakerfi. Í ljósi niðurstöðu rannsóknarskýrslunnar góðu er vart hægt annað en minnast á slíkt kerfi og krefjast þess að það sé alls staðar gegnsætt og opið og fyrir fram skilgreint svo ekki fari að gæta tortryggni. Starfslokasamningar skulu miðaðir við afkomu fyrirtækisins síðustu þrjú ár. Kaupaukakerfi mega á engan hátt miðast við skammtímasjónarmið og auka hættu á óheilbrigðri áhættusækni. Evrópusambandið hefur gefið út tilmæli um svona kerfi og gert er ráð fyrir að ákveðnar tillögur liggi fyrir innan skamms.

Nefndin telur eðlilegt að Fjármálaeftirlitið setji reglur um kaupaukakerfi og taki í þeim mið af því sem önnur ríki eru að gera í því sambandi. Starfskjarastefna í fjármálageiranum verður að vera í samræmi við trausta og skilvirka áhættustjórnun og jafnvægi milli bónusgreiðslna og fastra launa verður að vera eðlilegt og þak sé sett á bónusgreiðslur. Fjármálageirinn þarf að endurvinna traust almennings og eyða tortryggni og því er afar mikilvægt að hann standist skoðun í eðlilegri launasamsetningu. Eðlileg sölulaun eiga auðveldlega að vera innan þeirra ramma sem allir fella sig við. Ég mun þó aldrei fara ofan af þeirri skoðun minni að það er sérstakt mat að það þurfi og sé eðlilegt að þeir sem vinna með peninga og peningatengd mál þurfi og eigi rétt á sérstöku hvatakerfi á meðan allar þær stéttir sem vinna með fólk eiga að sætta sig við sín lágu taxtalaun og engum dettur í hug að bjóða bónus fyrir vönduð eða mikil störf. Þannig verð ég að viðurkenna að ég vildi gjarnan sjá samfélag þar sem það að vinna að mannlegum málefnum sé metið a.m.k. jafnmikilvægt og það að vinna með pappír og peninga og því eðlilegt að allir þessir aðilar eigi rétt á gagnsæju fyrir fram ákveðnu framgangskerfi launa.