138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[20:10]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um vátryggingastarfsemi, mál sem hægt er að hafa mörg orð um. Þetta mál hefur komið til umræðu mörg þing í röð og hefur ekki náð að klárast vegna þess að það hefur alltaf þótt svo viðamikið að það hefur verið látið bíða. En núna á að klára þetta. Það er ekki síst vegna þess að þarna erum við að innleiða Evróputilskipun.

Ég ætla ekki að fara ítarlega í efnisatriði málsins en mig langar að drepa á nokkur atriði í beinu framhaldi af því sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson ræddi um. Ég get tekið undir þær áhyggjur sem hann hafði af því að við drögum ekki lærdóm af því sem hér gerðist í þessu frumvarpi. Ég hef haft um það langt mál í hv. viðskiptanefnd og spurt velflesta umsagnaraðila sem komið hafa á fund nefndarinnar hvort við séum í rauninni að lagfæra hluti þannig að við getum andað rólega og verið viss um að hér séum við búin að girða fyrir öll vandkvæði í framtíðinni eða hvort við séum kannski með þessu að skapa okkur falskt öryggi. Ég verð að segja alveg eins og er að fjölmargir umsagnaraðilar tóku undir þær áhyggjur mínar að hugsanlega værum við þarna að skapa falskt öryggi.

Ég minnist þess að forsvarsmaður eins tryggingafélags sagði á fundi nefndarinnar að mikið af ákvæðum þarna væru til þess fallin eingöngu að auka skriffinnsku mjög mikið en þau hefðu engu breytt um hrunið. Mig langar að taka dæmi sem ég hef nefnt áður úr þessum ræðustól en ekki í umræðu um þetta mál, ég hef einnig rætt það í nefndinni, það er ákvæði sem kveður á um að endurskoðendum sé skylt að skipta um fyrirtæki reglulega og megi ekki vera endurskoðendur hjá hverju fyrirtæki lengur en í fimm ár.

Í alþjóðlegum reglum hefur tíðkast að endurskoðendur skipti um fyrirtæki á sjö ára fresti. Við settum það í lög um endurskoðendur árið 2008 og það ákvæði gekk í gildi einhvern tíma um mitt ár 2008. Síðan varð eins og allir vita bankahrun haustið 2008 þannig að það er ekki hægt að halda því fram með neinni sanngirni að það hafi verið vegna ákvæðisins um sjö árin að þetta blessaða hrun varð. En það er tillaga meiri hluta nefndarinnar að herða skuli þetta ákvæði. Nú skulu endurskoðendur ekki fara eftir þessum alþjóðareglum sem nota bene er verið að endurskoða víða úti í heimi. Það er að sjálfsögðu víðar en á Íslandi sem verið er að fara yfir lög og reglur hvað varðar fjármálafyrirtæki og tryggingafélög og önnur slík félög. Við erum ekki tilbúin til að bíða eftir því. Nei, hér skal pressa það niður í fimm ár. Þrátt fyrir að ég hafi spurt þessara spurninga margoft hef ég eiginlega bara fengið svarið „af því bara, af því að hér var bankahrun, af því að við ætlum að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur, af því að endurskoðendur brugðust, eins og kannski fleiri í aðdraganda bankahrunsins, ætlum við að herða þetta og hafa þetta harðara.“

Ég verð að segja alveg eins og er að það lætur mér ekki líða neitt betur eða segir eitthvað mér um hvort við eigum á hættu að verða fyrir öðru slíku hruni. Ég held að við séum í þessu máli dálítið föst í því að breyta litlum reglum sem við náum kannski að horfa á en við sjáum ekki stóra samhengið. Og alveg eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sagði áðan drögum við alls ekki lærdóm af rannsóknarskýrslunni.

Þegar við höfum rætt þetta í nefndinni hef ég fengið þau svör að við verðum að gera eitthvað. Það er algerlega nauðsynlegt. Við getum ekki beðið eftir öllu, það er ákveðið sjónarmið en við megum þó ekki gera neitt annað en að líta á þetta sem eitthvert skref í málinu vegna þess að annars eigum við það á hættu að við sköpum falskt öryggi. Ég get alveg ímyndað mér að þegar ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir fara að lesa upp afrekaskrána og telja upp allt það sem hér hafi gerst eftir bankahrun, verði sagt: Við erum búin að breyta lögunum um vátryggingafyrirtæki þannig að hér komi ekki til að reglurnar og eftirlitið bregðist eins og gerðist áður. En ég er bara alls ekki sannfærð um það. Ég gat ekki betur heyrt á starfsmönnum Fjármálaeftirlitsins en að þeir tækju undir þessar áhyggjur. Fjármálaeftirlitið fær hér mjög víðtækar heimildir. Fjármálaeftirlitið fær hér mjög veigamikið hlutverk og það má alveg til sanns vegar færa að það hafi ekki haft nægilegar heimildir í einhverjum tilvikum sem hefðu getað komið í veg fyrir ákveðna hluti. En ég held að við hefðum þá þurft að skoða alla þætti, nákvæmlega eins og kemur fram í minnihlutaáliti okkar sjálfstæðismanna, það hefur ekki verið tekið á verkaskiptingunni milli Seðlabanka og Fjármálaeftirlits. Það hefur ekki verið tekið á því að efla Fjármálaeftirlitið þannig að það geti sinnt þessum skyldum. Það er í nákvæmlega sömu vandræðum og önnur ríkisfyrirtæki og í sömu vandræðum og það var þegar mesta bólan var hér. Það getur ekki keppt um starfsfólk og sagði það beint út að það væri farið að keppa um starfsfólk, við skilanefndirnar, bankana, lögfræðistofur og aðra þá sem geta boðið hærri laun. En af því að vinstri stjórnin vildi setja lög í þessu landi þar sem mönnum er bannað að hafa tekjur yfir ákveðnum mörkum fullyrtu aðilar hjá Fjármálaeftirlitinu að þeir gætu átt í erfiðleikum með að keppa um starfsfólk. Það finnst mér vera vont. Mér finnst það vera ábyrgðarleysi og við hefðum þurft að fara miklu betur yfir þetta.

Í umsögnum fjölmargra aðila eru tínd til mörg svona atriði þar sem við hnykkjum á reglum hingað og þangað sem láta okkur halda að við séum að leysa vandann en gera það ekki. Ég held að það sé verra vegna þess að nú erum við öll meðvituð um að það þarf að endurskoða þessa reglu. Við erum öll meðvituð um að það er lærdómur sem við þurfum að draga af rannsóknarskýrslunni, það er lærdómur sem við þurfum að draga af því sem gerðist ekki bara hér heldur líka úti um allan heim. Okkur liggur svo mikið á að við ætlum ekki að taka mið af því sem er að gerast úti í heimi.

Ætlum við að taka lög fjármálafyrirtækja aftur upp á næsta þingi? Miðað við reynsluna, miðað við að þetta frumvarp kom inn í þingið 2007 fyrst eða jafnvel fyrr … (LMós: Það er ykkur að kenna.) Það er okkur að kenna, kallaði hv. þm. Lilja Mósesdóttir fram í. Ég beið eftir því að fá þessa athugasemd vegna þess að þetta hefur oft verið viðlíka málefnalegt af hálfu stjórnarliða í umræðum í nefndinni. Ef það tók þetta langan tíma að fara yfir þessi lög með heildarendurskoðun í huga, hvernig getum við verið viss þegar við erum búin að reka okkur á að það skiptir kannski ekki öllu máli þótt endurskoðandinn hafi bara verið hjá ákveðnu fyrirtæki í fimm ár? Það var eitthvað annað sem brást, eitthvað annað sem við hefðum kannski átt að sjá fyrir ef við hefðum gefið okkur betri tíma. Þetta eru hlutir sem mér finnst vera mikil synd að við lærum ekki af.

Ég ætla ekki að fara yfir einstök efnisatriði. Það hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem töluðu á undan mér gert og það vel. Ég tek undir nefndarálit 2. minni hluta en ég vil hvetja hv. viðskiptanefnd við meðferð málsins að fara betur yfir þetta atriði á milli 2. og 3. umr., athuga hvort það sé eitthvað sem hægt er að gera betur og jafnvel að leggja þetta til hliðar, taka nokkra fundi í að ræða rannsóknarskýrsluna og sérstaklega þá kafla sem nefndir voru hér og snerta vátryggingafyrirtæki í þessu tilfelli. Síðan munum við ræða þetta á svipuðum nótum þegar við förum í umræðu um fjármálafyrirtæki á eftir.