138. löggjafarþing — 124. fundur,  17. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[21:54]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ræði hér það mál sem er á dagskrá um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Skemmst er frá því að segja að það er nátengt því máli sem við vorum að ræða hér áðan, um vátryggingafélög og vátryggingastarfsemi. Eins og við þekkjum er það kannski kjarninn í því starfi sem við þurfum að vinna hvað varðar fjármálafyrirtækin að vekja traust á fjármálamörkuðum. Það er verkefni sem bíður okkar þingmanna og við þurfum að ganga þannig frá því að við reisum stoðir sem munu standa næstu áratugina.

Margt gott hefur verið gert í frumvarpinu og starfið hefur verið með miklum ágætum. Þeir ræðumenn sem talað hafa á undan mér hafa tilgreint marga ágæta þætti í frumvarpinu og þeim breytingartillögum sem liggja fyrir. Um flest af því var ágætissamstaða. En við erum hins vegar, virðulegi forseti, að detta í þá gryfju sem rannsóknarnefndin leggur áherslu á að við gerum ekki — ein af helstu ályktunum hennar er sett fram á bls. 54, í kafla 3.5, en þar er sérstaklega verið að fjalla um fjármálafyrirtæki. Þar segir, með leyfi forseta:

„Sérstaða banka og fjármálafyrirtækja og samfélagsleg staða þeirra og ábyrgð kallaði ekki bara á að þessari atvinnustarfsemi væri sett lagaleg umgjörð. Eðli starfseminnar og sú áhætta sem var fólgin í henni bæði fyrir hagsmuni einstaklinga og hagsmuni samfélagsins í heild kallaði á virkt starf eftirlitsaðila. En hvað sem leið þessari lagalegu umgjörð og starfi hinna sjálfstæðu eftirlitsaðila þurftu þau yfirvöld landsins sem landsmenn höfðu falið að gæta sameiginlegra og samfélagslegra hagsmuna þjóðarinnar að móta sér stefnu um það hvers konar starfsemi á fjármálamarkaði, og þá um leið að hvaða umfangi, gæti samrýmst stærð og getu þjóðarbúsins ef til áfalla kæmi. Jafnframt þurftu þau að fylgja þeirri stefnu eftir.“

Það kemur skýrt fram á ýmsum stöðum í skýrslunni að pólitíska stefnumótun vantaði og við höfum því miður ekki heldur farið í hana núna. Við erum í ákveðnum bútasaumi í þessari uppbyggingu þegar við erum að reyna að vinna aftur upp fjármálamarkað sem byggist á trausti og stendur á styrkari stoðum en áður var.

Virðulegi forseti. Ég er ekki að halda því fram að ekki sé margt gott í frumvarpinu. Ég vil hins vegar benda á hið augljósa, að menn verða, eins og kemur fram í skýrslunni, að vera með heildarsýnina í lagi. Menn þurfa að hafa alla hluti undir sem að þessum málum lúta og vinna með þeim hætti að úrbótum. Það þýðir ekki að menn eigi að fara hægt í hlutina eða ekki leggja vinnu á sig, alls ekki, það er okkar verkefni að ganga eins hratt og örugglega í það verkefni og mögulegt er en því miður erum við ekki að gera það.

Það er alveg ljóst að við höfum ekki tekið þá gríðarlegu vinnu sem liggur undir í starfi rannsóknarnefndarinnar og lagt það til grundvallar vinnu okkar hvað varðar þetta frumvarp. Það er tiltölulega stutt síðan þessi rannsóknarskýrsla kom fram og við höfum ekki tekið niðurstöðurnar og efnið sem snýr að fjármálamarkaðnum inn í þá vinnu sem snýr að þessu frumvarpi um fjármálafyrirtæki. Og það er ekki skynsamlegt.

Því skal hins vegar haldið til haga að margt í frumvarpinu byggir hins vegar á góðri vinnu sem erlendur sérfræðingur, Finni að nafni Kaarlo Jännäri, vann. Í grófum dráttum lagði hann til að Fjármálaeftirlitið fengi auknar valdheimildir og meira svigrúm til að meta rekstur fjármálafyrirtækja og lagði upp með það að skrá yfir skuldbindingar yrði hjá eftirlitinu í þeim tilgangi að geta takmarkað útlánaáhættu í fjármálakerfinu og fá betri yfirsýn yfir stóru áhættuskuldbindingarnar. Sömuleiðis eru í frumvarpinu settar strangari reglur um stórar áhættuskuldbindingar, lánveitingar til tengdra aðila og hæfi eigenda.

Í nefndaráliti 2. minni hluta kemur fram að við teljum að ýmis ákvæði frumvarpsins og breytingartillaga meiri hlutans sé jákvæð. Við erum fylgjandi því að það sé skýrara hverjar heimildir Fjármálaeftirlitsins séu til inngripa. Við vitum að Fjármálaeftirlitið hefði getað gert betur ef marka má skýrsluna en hins vegar er mjög mikilvægt að það sé alveg skýrt hverjar heimildir stofnunarinnar eru.

Að sjálfsögðu er meiri hlutinn ánægður með að tekið er inn í heilu lagi, og ber að þakka fyrir það, frumvarp sem hv. þingmaður flutti ásamt nokkrum öðrum, sem skyldar þau fyrirtæki sem eru í eigu banka til að vera með sömu upplýsingaskyldu eins og þau væru í Kauphöllinni. Er það að sjálfsögðu mikið framfaraskref.

Settar eru hömlur á lánveitingar til fjármálafyrirtækis, til eigenda virkra eignarhluta, stjórnarmanna og framkvæmdastjóra. Við ræddum það nokkuð í nefndinni, og tæmdum það kannski ekki, en það er spurning hvort nóg sé að gert. Ég verð að viðurkenna að ég tel mjög mikilvægt að hafa skýrar reglur, einfaldar, skýrar reglur ef þess er einhver kostur. Ég velti þeirri hugmynd upp í nefndinni, við ræddum það á fundi nefndarinnar og sömuleiðis við umsagnaraðila sem þar komu, að stjórnarmenn, framkvæmdastjórar og lykilstarfsmenn í viðkomandi fjármálastofnun hefðu fjármálaviðskipti sín annars staðar. Þannig var þetta einu sinni á Íslandi. Bankastjórar þurftu að vera með viðskipti sín, bankaviðskipti, í öðrum banka en í sínum eigin. Ég verð að viðurkenna að mér hefur alltaf fundist það mjög rökrétt; einfalt og skýrt. Sú hætta er vissulega til staðar að ef menn ætla sér að gera eitthvað óeðlilegt sé hægt að skiptast á einhverri óeðlilegri fyrirgreiðslu á milli stofnana en það er þó flóknara að gera það en áður var. En við skulum vona að við séum búin að girða fyrir það að menn misnoti þá aðstöðu sem þeir hafa eins og við höfum því miður horft upp á.

Í frumvarpinu er lagt til að Fjármálaeftirlitið fái heimild til að setja reglur um kaupaukakerfi til að koma í veg fyrir þá misnotkun sem hér var við lýði. Það er einnig til bóta að ekki er lengur heimild til að veita lán við kaup á hlutabréfum með veði í sjálfum bréfunum, þ.e. til eigin starfsmanna.

Eins og ég sagði, og það er við það sem maður gerir mestar athugasemdir, þá á hið sama við um frumvarpið um vátryggingar sem við ræddum hér áðan. Formanni viðskiptanefndar, hv. þm. Lilju Mósesdóttur, fannst ekki rétt að vera að ræða mörg frumvörp í einu, ef ég skildi hana rétt, en við komumst ekki hjá því. Við komumst ekki hjá því að ræða þetta í heildarsamhengi. Við getum ekki lokað augunum fyrir því að þessir hlutir tengjast.

Við höfum stórt og umfangsmikið verkefni fyrir framan okkur og við ættum að nota skýrslu rannsóknarnefndar sem grunn. Við verðum að skoða fleiri þætti en við höfum gert og líta á þetta í heildarsamhengi. Ég er kannski að endurtaka það sem ég sagði í umræðunni áðan en þá var ég sérstaklega að horfa til laga um Fjármálaeftirlitið, endurskoðendur og klárlega innstæðutryggingarkerfið sem á að vera grundvöllurinn að fjármálakerfinu í framtíðinni.

Við höfum heldur ekki rætt í nefndinni um hluti sem eru gríðarlega mikilvægir. Nokkrir þeirra eru tilgreindir í nefndaráliti 2. minni hluta, t.d. það hvort og hvernig setja eigi reglur um hámarkseignarhlut fjármálafyrirtækja. Þetta er eitt af þessum grundvallaratriðum. Við þekkjum það að um langan tíma var hér sú stefna að eignaraðild yrði dreifð í fjármálafyrirtækjum. Það er enginn vafi í mínum huga að ef menn hefðu haldið sig við þá stefnu hefði það verið betra. Og það þarf að ræða það hvernig best er að standa að því. Við erum með mjög lítinn markað, við erum 300 þúsund. Það þarf því tiltölulega lítinn hluta hér á Íslandi í viðkomandi banka til þess að vera mjög stór. Það þarf ekki mikið á alþjóðlegan mælikvarða til þess að vera stór fiskur í litlum polli svo að maður noti slíka samlíkingu.

Það er ótrúlegt, miðað við hve stórt mál þetta er í skýrslunni og hve mikið það hefur verið rætt, að við höfum ekki farið yfir þetta, að við séum að semja lög um fjármálafyrirtæki án þess að taka á þessum þætti, þ.e. hámarkseignarhlut fjármálafyrirtækja, hvort og hvernig setja eigi reglur um það. Ég held að við séum flest sammála um að mikilvægt sé að setja reglur um það. Ég tók umræðu um það hér við vinstri menn sem börðust harkalega gegn frumvarpi um fjölmiðla á sínum tíma. Ég barðist harkalega fyrir því að settar væru reglur um hámarkseignarhlut fjölmiðlafyrirtækja. Það fór eins og það fór, forsetinn skrifaði ekki undir það og þau lög voru numin úr gildi. Það er enginn vafi í mínum huga að það var vont að lögin sem voru samþykkt skyldu ekki komast til framkvæmda. Það er kaldhæðnislegt, þó svo ég ætli ekki að gera það að umræðuefni hér, að nú er komið frá hæstv. menntamálaráðherra Vinstri grænna frumvarp um fjölmiðlafyrirtækin og ekki enn tekið á eignarhlut í þeim lögum. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé kannski eitthvert stefnumál sem ég hafði ekki áttað mig á hjá Vinstri grænum að ekki megi setja reglur um hámarkseignarhlut í fyrirtækjum.

Síðan er annað atriði sem við höfum ekkert rætt sem er til umræðu í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við eftir þetta bankahrun, sem kom svo sannarlega við fleiri lönd en okkar. Það atriði snýst um það hvort skynsamlegt þyki að reka fjárfestingarbanka og viðskiptabanka í einni stofnun. Það er stórmál. Færa má rök fyrir því að þetta sé mjög ólík starfsemi, annars vegar hin hefðbundna viðskiptabankastarfsemi, sem miðar við allar stærðir af viðskiptavinum en þó ekki síst hina smærri, og síðan fjárfestingarbankar sem eru meiri gerendur í atvinnulífinu og taka meiri áhættu, taka beinan þátt í kaupum á fyrirtækjum og slíku. Það má eiginlega segja að þeir þrír stóru viðskiptabankar sem hér voru höfðu allir sterkari einkenni fjárfestingarbanka en viðskiptabanka. Eitt af því sem við lentum í var það að bankarnir voru allir mjög svipaðir, þetta voru eiginlega eins bankar, og þess vegna var áhættan einsleitari. Það hefði verið betra ef við hefðum haft ólíka banka en ekki líka banka. Þá hefði kannski verið möguleiki á því að einhver bankanna hefði getað lifað þetta af.

Við höfum rætt um endurskoðunina, ég held að menn komist ekkert hjá því og ég held að það sé mjög nauðsynlegt. Við erum alltaf að ræða um hlutverk endurskoðenda og það er mjög mikilvægt að fara í gegnum þau lög í þessu samhengi. Við höfum rætt það nokkuð í kvöld.

Það er annað atriði sem við höfum lítið rætt, sem er þó stórmál, en það er Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið. Það er alveg ljóst og hefur komið fram, m.a. hjá seðlabankastjóra í umræðum í nefndinni, að vísu út af öðru máli, að ekki hefur verið skýr verkaskipting þar á milli. Margt bendir til þess, og ég er þeirrar skoðunar, að það hafi verið afskaplega óskynsamlegt að skilja á milli þessara stofnana á sínum tíma. Þegar við erum að ræða lög um fjármálafyrirtæki hljótum við að þurfa að fara yfir þennan þátt málsins. Ég held að allir hljóti að vera sammála um það sem líta á það með einhverri sanngirni. Ég sé þetta einhvern veginn þannig fyrir mér að við værum að gera nokkra hluti í einu, í fyrsta lagi að ákveða það hvernig við sjáum þetta fyrirkomulag. Erum við að leggja grunninn að öðru alþjóðlegu fjármálaumhverfi? Er það það sem við viljum? Eða viljum við alls ekki að íslenskir bankar séu á alþjóðavettvangi og færi kvíarnar út fyrir landsteinana? Við höfum aldrei tekið þá umræðu. En hvort heldur sem er, hvort sem við teljum æskilegt að þeir stækki og dafni á einhverjum tíma eða viljum sjá þá með takmarkaðri starfsemi hér á Íslandi, er algjörlega ljóst að við verðum að hafa skýrt eftirlit og eftirlit sem er í takti og á svipuðum stað sem getur fylgst með þessari starfsemi.

Það er nefnilega þannig, og það er engin ákvörðun sem við tókum, virðulegi forseti, að flestar reglur — svo að ég vísi, með leyfi forseta, beint í rannsóknarskýrsluna, í Mark J. Flannery. Hann segir á bls. 55:

„Í nær öllum löndum gilda strangar reglur um bankastarfsemi. Að hluta til endurspegla slíkar reglur formlega og óformlega stefnu stjórnvalda sem kjósa að styrkja banka í fjárhagserfiðleikum í stað þess að láta þá verða gjaldþrota. Flestar reglur byggjast á þeirri trú að stjórnvöld muni ekki leyfa bönkum sínum að falla og gera innlánseigendum að bera tapið. Slíkar „ætlaðar ríkisábyrgðir“ gera bönkum kleift að fá lánað fjármagn á mun lægri vöxtum en ella, þar sem ekki er tekið tillit til áhættu þeirra. Bankarnir hafa því óeðlilegan hvata til að taka mikla áhættu því þegar vel gengur hagnast hluthafarnir en þegar illa gengur munu stjórnvöld sennilega taka á sig hluta tapsins. Stjórnvöld vilja því takmarka áhættutöku banka, í því skyni að vernda skattgreiðendur og draga úr bjögun á fjármálalegum hvötum. Slíkar aðgerðir nefnast „varúðarreglur“ (e. prudential regulation) og slíkar reglur geta gjarnan takmarkað arðsemi banka.“

Virðulegi forseti. Ég fullyrði að þetta er umræða sem við Íslendingar höfum ekki tekið almennt en ég held að nauðsynlegt sé fyrir okkur að taka og er í raun kjarni máls. Þær þjóðir sem hafa lengri reynslu en við af bankastarfsemi voru mjög meðvitaðar um þetta og komust betur frá fjármálakreppunni. Þá nefni ég lönd eins og Sviss og Singapúr, Hong Kong, Belgíu og Holland, þau hafa haft eftirlit með stórum alþjóðlegum bönkum í mörg ár. Nú eru okkar bankar ekki stórir á alþjóðlega mælikvarða, voru það kannski aldrei, en þeir voru stórir á íslenskan mælikvarða og langt umfram það sem eftirlitskerfi okkar réð við. Þeir eru samt sem áður ansi stórir miðað við ríkissjóð. Þetta er stórt ef áfall verður. Við getum því ekki, þegar við ræðum þetta, annað en farið mjög alvarlega í eftirlitskerfin. Er skynsamlegt að hafa þetta á tveimur stöðum, í Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu? Núverandi seðlabankastjóri sagði að verkaskiptingin hefði ekki verið skýr, það hefði vantað yfirsýn yfir fjármálastöðugleikann.

Virðulegi forseti. Ég er sannfærður um að allir nefndarmenn, allir hv. þingmenn í viðskiptanefnd, vilja gera þetta eins vel og mögulegt er. Ég ætla engum annað. En ég segi fyrir sjálfan mig, og það er ekki nein fullkomnunarárátta, að ég er sannfærður um það, eftir að hafa farið í gegnum þessa umræðu, eftir að hafa farið í þessa vinnu, að við erum ekki búin að girða fyrir kerfislega áhættu. Við vitum ekki hvort eftirlitsstofnanir eru tilbúnar til að sinna því hlutverki sem við ætlum þeim.

Ég held að öllum þeim hv. þingmönnum sem verið hafa í nefndinni hafi verið það ljóst að þetta væri ekki tilbúið. Við getum ekki klárað þetta mál og við getum ekki klárað að byggja hér upp grunn að nýju fjármálakerfi öðruvísi en að taka í það minnsta Fjármálaeftirlitið undir en þó líka innstæðutryggingasjóðinn og lög um endurskoðendur. Það er alveg hreint og klárt að spurninguna um Seðlabankann, verkaskiptinguna og Fjármálaeftirlitið, stöðu þess, verðum við að klára.

Virðulegi forseti. Síðasta sumar gengum við illu heilli í miklum hraða frá lögum um sparisjóði. Þá stóð hér upp úr stjórnarliðum að við værum að þvælast fyrir þessu máli, stjórnarandstæðingar, og kæmum í veg fyrir endurreisn sparisjóðakerfisins, það lægi svo gríðarlega á að hægt væri að fara að styrkja þær stofnanir með fjárframlögum frá ríkinu. Það eru bara nokkrir dagar frá því að gengið var í þau verk og eftir stendur að við vitum ekki hver framtíðarskipan sparisjóðanna í landinu er. Í þessu frumvarpi er vandamálinu að stórum hluta varpað yfir á Fjármálaeftirlitið. Gerðar eru minni kröfur til sparisjóðanna en annarra fjármálastofnana um eiginfjárframlag og það sem á að koma í veg fyrir að það sé hættulegt er það að Fjármálaeftirlitið á að koma með reglur um að sparisjóðirnir séu með staðbundna starfsemi. Það er alveg sama spurningin hvort við ýtum því yfir á Fjármálaeftirlitið eða ekki. Hvað er staðbundinn afmarkaður markaður, eins og segir í lögunum, fyrir sparisjóði? Er Seltjarnarnes staðbundinn afmarkaður markaður fyrir sparisjóði? Er það Vesturbærinn? Álftanes, eins og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir leggur til? Eða er það höfuðborgarsvæðið?

Í rauninni er uppítökusvæðið fyrir banka og sparisjóði ekki stórt þegar íbúar landsins eru 300 þúsund. Málið er mjög einfalt, þetta er skýrt afmarkað dæmi um það verkefni sem við eigum eftir að vinna. Ég hef mjög miklar áhyggjur af sparisjóðakerfinu á Íslandi. Ég verð að viðurkenna að ég ætla ekki að eyða miklum tíma í það hvort sparisjóðsformið sé miklu betra rekstrarform en hlutafélag eða eitthvað annað. Því miður fór nú jafnilla fyrir sparisjóðunum hvort sem um var að ræða hefðbundið fyrirkomulag eða hlutafélög, það var ekki það sem gerði gæfumuninn. Aðalatriðið er að við eigum eftir að klára þetta verkefni. Við erum að ganga frá lögum um fjármálafyrirtæki og það er ekki lítið mál að sparisjóðirnir standi út af borðinu.

Við höfum ekki rætt aðra hluti sem snúa að Fjármálaeftirlitinu. Við erum enn í þeirri stöðu að umsagnaraðilar og aðrir benda okkur hvað eftir annað á það launakerfi sem búið er að byggja upp hjá ríkinu — popúlismann sem gengur út á það að enginn hafi hærri laun en forsætisráðherra. Ekki er tekið tillit til lífeyrisréttinda, ýmissa fríðinda forsætisráðherra, aðstoðarmanns eða bílstjóra eða hvað það er, heldur er það bara krónutalan í laununum. Þetta mun gera Fjármálaeftirlitinu erfitt fyrir að ná í starfsmenn. Núna eiga þeir erfitt með að keppa við ýmsar stofnanir eins og skilanefndir og lögfræðistofur o.fl., það mun ekkert lagast þó að við samþykkjum frumvarpið, þetta sama vandamál er til staðar, sama vandamál og menn tala svo mikið um í rannsóknarskýrslunni. Því miður, virðulegi forseti, ætlum við ekki að læra af skýrslunni í þessu frekar en í mörgu öðru.

Annar minni hluti er með tvær breytingartillögur sem ég vil gera lítillega grein fyrir. Við ræddum mikið um þau fyrirtæki sem bankarnir eru nú að taka yfir og höfum haft miklar áhyggjur af því að það kynni að valda ójafnri samkeppnisstöðu og ýmsum öðrum vandamálum. Samkeppnisyfirvöld og ýmsir aðrir hafa bent á að það sé mjög mikilvægt að þetta sé tímabundin aðgerð og að reglur séu skýrar um aðkomu banka og fjármálafyrirtækja að rekstri annarra fyrirtækja í óskyldum rekstri og leggja áherslu á það að þau fjármálafyrirtæki losi sig úr honum sem allra fyrst. Meiri hlutinn hefur komið til móts við okkur í ýmsu sem þetta varðar og ég nefndi áðan frumvarpið um að þessi fyrirtæki þyrftu að lúta sömu reglum um upplýsingagjöf og fyrirtæki í Kauphöllinni. Við leggjum hér til að fjármálafyrirtækin þurfi að losa sig við eignarhaldið áður en 12 mánuðir eru liðnir frá því að fyrirtækið hóf að stunda starfsemina og ef einhverjar þær aðstæður eru uppi að það gengur ekki upp þurfa fjármálafyrirtækin að fá undanþágu frá Fjármálaeftirlitinu.

Annað mál er gríðarlega stórt og það er það að við í minni hlutanum, sjálfstæðismenn, höfum lagt sérstaka áherslu á það að vita hverjir eiga hina nýju einkavæddu banka; Arion banka og Íslandsbanka. Ég ætla ekki að rekja þá sögu, hún er löng og þyrnum stráð sagan um það hvernig gengið hefur að koma því í gegn. Það er hins vegar rétt að taka fram að meiri hlutinn hefur komið til móts við okkur hvað þetta mál varðar þannig að kröfulistinn, ef frumvarpið nær fram að ganga, mun þá liggja frammi. En það er ekki nóg, virðulegi forseti, það þarf að sýna svo að ekki verði um villst hverjir eiga kröfurnar. Það eru margar hættur núna þegar þessar kröfur, sem eru bara eins og hlutafé í þessum bönkum, ganga kaupum og sölum og ég held að reynslan hafi sýnt okkur að mikilvægt er að hafa gegnsæi hvað það varðar. Þess vegna, virðulegi forseti, leggjum við til að slitastjórn skuli tryggja með fullnægjandi hætti hverjir eru eigendur krafna þannig að hægt sé að fylgjast með því hvort einhver aðili sé að taka yfir bankana því að það er alls ekki ólíklegt að svo sé í þessu umhverfi.