138. löggjafarþing — 125. fundur,  18. maí 2010.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Eins og við vitum öll glíma heimili landsins og fyrirtæki við gríðarleg vandamál og því miður hefur hæstv. ríkisstjórn ekki auðnast að grípa til þeirra ráðstafana og bjóða upp á þær lausnir sem nauðsynlegar eru. Það vill hins vegar svo til að í þessum þingsal eru þingmenn sem hafa lagt fram mál sem gætu a.m.k. komið málum heimilanna á einhvern rekspöl.

Í allsherjarnefnd hefur svokallað lyklafrumvarp, sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir hefur lagt fram, verið fast í sjö mánuði. Ég lýsi eftir því að allsherjarnefnd afgreiði það frumvarp þannig að við í þessum þingsal getum tekið það til ítarlegrar umræðu og hugsanlega gert á því breytingar sem kunna að vera nauðsynlegar.

Í allsherjarnefnd er jafnframt annað frumvarp sem líka var lagt fram í mars af Lilju Mósesdóttur og fleirum sem er um fyrningarfrest. Það kann að vera að gera þurfi ákveðnar breytingar á því, umsagnarfrestur er ekki liðinn, en ég skora á þingheim að eftir sveitarstjórnarkosningar taki menn þessi tvö frumvörp og taki af skarið því að ríkisstjórninni er greinilega ekki kleift að koma heimilum til bjargar. Við skulum heita því að eftir sveitarstjórnarkosningar tökum við þingmenn til okkar ráða og afgreiðum þessi frumvörp.