138. löggjafarþing — 125. fundur,  18. maí 2010.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mikið er talað um samráð og stjórnarandstaðan kvartar yfir því að ríkisstjórnin stundi lítt þá iðju. Ég hef velt þessu svolítið fyrir mér í samhengi við ráðherraræðið sem ríkt hefur hér á landi um árabil og gerir því miður enn. Mörg okkar eru þeirrar skoðunar að áhrif framkvæmdarvaldsins séu of mikil í þinghúsinu.

Ég velti því fyrir mér hver yrðu áhrif þingsins ef ríkisstjórnin væri í öllum málum búin að ráðfæra sig við forustu stjórnarandstöðunnar áður en þau koma í þingið. Þá er ég hrædd um að kaupin á eyrinni gætu orðið svolítið kúnstug og næsta lítið eftir fyrir þingið að gera.

Meðferð mála í þinginu er það sem nú er gjarnan kallað samráð. Ríkisstjórn og þingmenn leggja mál fyrir þingið og samráð er haft um þau í nefndum þingsins. Því miður er reyndin sú að í allt of mörgum málum leggjast menn í skotgrafirnar þó að vissulega séu ánægjulegar undantekningar frá því. Auðvitað mun okkur alltaf í grundvallaratriðum greina á í einhverjum málum, það er eðlilegt, en í öðrum efnum eigum við að geta nálgast málstað hvert annars í meðferð mála í þinginu.

Í síðustu viku kvartaði stjórnarandstaðan yfir því að ekki hefði verið haft samráð við hana um breytingar á Stjórnarráðinu. En til að gera þær breytingar þarf að breyta lögum, samráðið er lögbundið. Stundum finnst mér að þegar stjórnarandstaðan talar um samráð þýði það að hún ein eigi að ráða. Varla getur það verið svo. Þó að fólk hafi stjórnað lengi er það ekki til eilífðar. Þannig virka hlutirnir ekki í lýðræðisþjóðfélagi. Allir verða að skilja það.