138. löggjafarþing — 125. fundur,  18. maí 2010.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég kem upp til að ræða um frétt sem kom í tíu-fréttunum í gærkvöldi þess efnis að til stæði að gera mjög miklar breytingar á því hvernig námslán væru greidd út hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Lagðar voru fram tillögur í nokkrum liðum á stjórnarfundi í gær og meðal annars þess efnis að geri eigi auknar kröfur til nemenda um námsárangur og mér skilst raunar að mun fjölþættari breytingar en þetta séu í farvatninu. Stjórn lánasjóðsins mun koma saman á morgun og taka ákvörðun um þetta og ráðherra mun síðan þurfa að samþykkja þessar væntanlegu breytingar.

Það er líka skilningur minn að ástæðan fyrir því að verið sé að fara í þessar breytingar sé krafa frá ráðuneytinu á lánasjóðinn um flatan niðurskurð og ég verð að lýsa yfir miklum áhyggjum af því máli. Ég hef miklar áhyggjur af því að þetta fæli ungt fólk frá námi einmitt á þeim tíma sem ég tel að við viljum frekar sjá fólk fara í nám en fara á atvinnuleysisbætur eða þurfa að leita sér aðstoðar hjá sveitarfélögunum og þiggja félagslega aðstoð þar. Að mörgu leyti væri hægt að fara í þess konar breytingar á annan hátt, t.d. með því hugsanlega að hækka vexti. Mér skilst að námsmenn séu líka búnir að leggja fram tillögur um að breyta fyrirkomulaginu á þann veg að hluti verði styrkur og hluti lán til styttri tíma og þá frekar á markaðskjörum, að námsmannahreyfingunni mundi frekar hugnast það.

Ég vil spyrja formann menntamálanefndar, hv. þm. Oddnýju Harðardóttur, hvort hún hafi einhverjar frekari upplýsingar um þessar fyrirætlanir hjá lánasjóðnum og hvort þetta sé eitthvað sem henni hugnist.