138. löggjafarþing — 125. fundur,  18. maí 2010.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ástæða þess að ég tek til máls er forsíðufrétt í Morgunblaðinu með svohljóðandi fyrirsögn: „Opinber fjármögnun. Reykjanesbær fjármagnar um 40% kaupverðs Magma Energy á hlut Geysis Green Energy í HS Orku.“

Frú forseti. Þarna er um að ræða 6,3 milljarða, 40% kaupverðsins, sem sveitarfélag í alvarlegum fjárhagsþrengingum, og sem er núna undir eftirlitsnefnd sveitarfélaganna, leggur af mörkum í einhverju formi til að fjármagna viðskipti einkafyrirtækis. Ég spyr hvort einhver hér getur upplýst það hvernig þessu viðvíkur. Ég verð að segja að þarna er nöturlegur vitnisburður um hugarfar þeirra sem er trúað fyrir almenningsverðmætum, í þessu tilfelli stjórnenda Reykjanesbæjar, sem sjá ekkert því til fyrirstöðu að nýta opinbert fé, þ.e. fjármuni almennings, til að fjármagna viðskipti einkafyrirtækis. Þetta er það sem stundum er kallað, með leyfi forseta, „sósíalismi andskotans“ sem felst í því að einkavæða gróða og þjóðnýta tap eða í þessu tilfelli að nota almannafjármuni til að fjármagna einkaviðskipti.

Ég vil fá að taka undir með þeim sem hafa tjáð sig um það að auðvitað átti fyrir löngu að vera búið að banna erlendum aðilum að eignast ráðandi hlut í þjóðhagslega mikilvægum fyrirtækjum eins og í þessu tilviki, í þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins, það er nokkuð sem ég að sjálfsögðu harma.