138. löggjafarþing — 125. fundur,  18. maí 2010.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Fyrst vegna frammíkalls hv. þm. Eyglóar Harðardóttur, henni mun víst vera kunnugt um að Frakkland er t.d. aðildarríki að Evrópusambandinu. Það var nefnt fyrr í þessari sundurlausu umræðu hverjir væru hvar.

Mig langar til að tala um ráðdeild í ríkisrekstri og ég verð eiginlega að lýsa undrun minni á afstöðu hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar til ráðdeildar í ríkisrekstri sem handhafa hægrimennsku og ráðdeildar. Sjálfstæðismenn hafa a.m.k. skipað sjálfa sig þar í sess í umræðum um ríkisfjármál og annað. Hvaða tillögur hafa þá sjálfstæðismenn nú um ráðdeild í ríkisrekstri aðra en þá að taka lán í framtíðinni og hjá (Gripið fram í.) framtíðarkynslóðum? Hvar er nú ráðdeildin sem sjálfstæðismenn hafa gumað af áratugum saman meðan báknið þeirra óx um tugi prósenta? (ÓBK: Var það …?) Þar var frjálshyggjan í framkvæmd, hv. þm. Óli Björn Kárason, (Gripið fram í.) aldeilis með leiftursókn og leifturhraða blés ríkisbáknið út undir stjórn Sjálfstæðisflokksins í 18 ár, svo ekki sé talað um alla hina áratugina (Gripið fram í.) á síðustu öld.

Mig langar að víkja að allt öðru máli þó að gaman sé að ræða um Sjálfstæðisflokkinn í þessum stól, mig langar að biðja hv. þingmenn að láta af þeim leiða sið að telja alla útlendinga hættulegt fólk. Íslendingar eru sjálfum sér langhættulegastir. Það sýnir reynslan okkur. Ég bið fólk um að skoða hug sinn áður en það byrjar að útmála (Forseti hringir.) erlenda fjárfesta sem hættulegt fólk. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Hvaða fólk er það? …)