138. löggjafarþing — 125. fundur,  18. maí 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[14:09]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Um leið og ég tek undir með hv. þingmanni um nauðsyn þess að farið verði í pólitíska langtímastefnumótun á sviði vátrygginga- og fjármálamarkaðar vil ég bæta við að hér erum við að taka mikilvægt skref í að styrkja löggjöf um vátryggingamarkaði. Hér er margt jákvætt á ferð. Við erum að taka á viðskiptaháttum. Við erum að gera það óheimilt að veita lán með veði í eigin bréfum. Við erum að skerpa á hæfisskilyrðum stjórnar, starfandi stjórnarmanna, kaupréttar- og kaupaukamálum, styrkja stöðu endurskoðenda. Við erum að hnykkja á heimildum Fjármálaeftirlitsins, setja reglur um innri endurskoðun fjárfestingar, lánveitingar, viðskipti tengdra aðila og breytingu á viðurlögum. Hér eru á ferð mjög jákvæð skref til að styrkja löggjöf á vátryggingamarkaði en meira þarf að gera og að sjálfsögðu mun þingmannanefndin sem fer núna í gegnum rannsóknarskýrsluna taka mið af þeim breytingum sem þar eru lagðar til og leggja til í þeirri nauðsyn sem er. Og þar erum við sammála um að farið verði í langtímapólitíska stefnumótun á þessum markaði.