138. löggjafarþing — 125. fundur,  18. maí 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[14:28]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Þessi grein, ef hún verður samþykkt með þessum breytingum, er orðin mjög ítarleg. Ég tel að það séu fáar greinar í þessu frumvarpi sem endurspegla eins vel það vantraust sem meiri hlutinn og jafnvel Alþingi bera til Fjármálaeftirlitsins. Við tilgreinum hér mjög nákvæmlega skilyrði stjórnarmanna og þegar ég hef borið saman svipaða löggjöf um vátryggingafélög, t.d. í Svíþjóð þar sem hún er reyndar mjög ítarleg, er íslenska greinin umtalsvert lengri en sú sænska hvað varðar hæfi stjórnarmanna, endurskoðun og síðan reikningsskil. En það eru hins vegar þættir hérna sem ég tel að séu jákvæðir. Ég tel að það sé jákvætt að við gerum greinarmun á því hvort menn hafa brotið lög eða verið úrskurðaðir gjaldþrota. En ég tek undir það sem bent er á, að það er að vísu svolítið einkennilegt (Forseti hringir.) að við skulum ekki geta treyst Fjármálaeftirlitinu til að setja skýrar reglur og framfylgja þeim heldur þurfum að setja svona ofboðslega nákvæmlega orðaðar lagagreinar (Forseti hringir.) inn í lagatextann sjálfan.