138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[14:42]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum. Margt í þessu frumvarpi er til mikilla bóta frá gömlu löggjöfinni. Frumvarpið er afrakstur vinnu nefndar sem sett var á laggirnar fljótlega eftir hrun bankanna haustið 2008. Hlutverk hennar var að kanna hvort eitthvað í lagasetningunni kynni að hafa brugðist og þá hvað, með það að markmiði að koma í veg fyrir að sambærilegir atburðir og áttu sér stað í október 2008 gætu endurtekið sig. Segja má að löggjafanum líði á margan hátt eins og bankakerfið hafi misst niður um sig og vilji því gyrða fyrir að slíkt endurtaki sig með belti og axlaböndum um leið og bankakerfinu er gefinn sá slaki að geta hreyft sig eðlilega.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er ýmislegt ámælisvert um fjármálafyrirtæki, vöxt þess, stjórnun, eignarhald o.fl. sem að einhverju leyti er brugðist við í þessu frumvarpi en ekki er ólíklegt að þingmannanefndin sem er að skoða ábendingar skýrslunnar lið fyrir lið muni beina ákveðnum atriðum til viðskiptanefndar sem þá mun endurskoða löggjöfina með tilliti til þeirra ábendinga. Rannsóknarnefndin telur nauðsynlegt að haldið sé áfram með þau frumvörp sem eru í smíðum þó að þau gangi kannski ekki eins langt og niðurstöður nefndarinnar gætu gefið tilefni til. Gott er að skoða þau frumvörp sem unnin eru um fjármálafyrirtæki í samhengi við eigendastefnu ríkisins um fjármálafyrirtæki. Þeirri stefnu er ætlað að skýra fyrirætlanir ríkisins sem eiganda að fjármálafyrirtækjum og skapa traust og trúverðugleika á ríkinu sem eiganda, bæði út á við gagnvart almenningi, viðskiptavinum og samstarfsaðilum, og inn á við gagnvart Alþingi, framkvæmdarvaldinu, fjármálafyrirtækjum, starfsfólki þess og stjórnendum.

Í endurskipulagningu fjármálafyrirtækja þarf ríkið að vera trúverðugur eigandi og hlutverk þess hafið yfir vafa um pólitísk afskipti af daglegum ákvörðunum fyrirtækjanna. Eigendastefnan getur þar haft afgerandi áhrif um þróun íslensks fjármálamarkaðar til framtíðar. Helstu markmið með stefnunni eru að stuðla að uppbyggingu heilbrigðs og öflugs fjármálakerfis sem þjónar hagsmunum íslensks samfélags, að byggja upp traust og trúverðugleika á íslenskum fjármálamarkaði, að ríkið fái arð af því fé sem það leggur til íslenskra fjármálafyrirtækja, að tryggja samkeppni á markaði til framtíðar, að fjármálastofnanir sem ríkið á eignarhlut í hagi starfsemi sinni þannig að rekstur þess sé skilvirkur, að markvisst sé unnið að endurskipulagningu og stuðlað að nýsköpun og þróun starfseminnar, að stofnanirnar þjóni markvisst hagsmunum heimila og fyrirtækja í landinu og að eignaraðild í fjármálafyrirtækjum verði dreifð. Bankasýslan á síðan að framfylgja þessari stefnu sem faglegur umsýsluaðili eignarhluta ríkisins meðan á endurreisn fjármálamarkaðarins stendur. Markmiðið er að umsýslan verði fagleg og traust og yfir vafa hafin.

Í kaflanum um stefnumörkun og vinnulag er tiltekið að fjármálafyrirtæki skuli hafa skýra framtíðarsýn og markmið varðandi starfsemi sína og skuli miðla þeim með skýrum hætti á heimasíðum sínum. Helstu þættir í þeim málum eru starfsmannastefna, stefna um samfélagslega ábyrgð, jafnrétti og fleira. Þá er í eigendastefnunni mælt fyrir um að fjármálafyrirtæki skuli setja fram og framfylgja skriflegum reglum um siðferði og stefnu, sýna samfélagslega ábyrgð til að treysta rekstrargrundvöll sinn og auka trúverðugleika starfseminnar. Þá er talað um að fjármálafyrirtæki þurfi að byggja upp góðan orðstír. Slíkt sé afar mikilvægt til uppbyggingar fjármálafyrirtækja til framtíðar. Í anda þessarar stefnu er frumvarpið sem við ræðum hér skrifað sem mikilvægt skref í þá átt að byggja upp heilbrigt og traust fjármálakerfi á Íslandi.

Í 3. kafla rannsóknarskýrslunnar er talað um mikilvægi fjármálastofnana fyrir hvert samfélag og sagt að hagsæld einstakra ríkja sé háð því hvernig staðið er að þeim stofnunum. Það sem þarf að vera í lagi til að þetta fjöregg samfélaga gegni eiginlegu hlutverki sínu er t.d. skýrt eignarhald, eftirlit með bönkum, samkeppni þeirra á milli, eftirlit sem þeir veita lántökum sínum, kerfislegt mikilvægi og traust samfélagsins. Til að tryggja gegnsæi eignarhalds var sett inn í frumvarpið ákvæði um að fjármálafyrirtæki ætti að birta upplýsingar um nöfn þeirra sem eiga 5% eða meira í fjármálafyrirtækjum. Enn er erfitt að framfylgja þessu þar sem ekki hefur verið látið reyna á réttmæti allra krafna í bú hinna föllnu banka og því ekki ljóst hverjir eru raunverulegir eigendur. En þegar því ferli lýkur verður farið að ákvæðum laga um eignarhluti og meðferð þeirra og áðurnefnda birtingu á nöfnum þeirra sem eiga meira en 5% í fjármálafyrirtækjum.

Í 17. gr. þessa frumvarps er ákvæði um að fjármálafyrirtæki sé óheimilt að veita lán sem tryggð eru með veði í hlutabréfum eða stofnfjárbréfum útgefnum af því sjálfu, svo og að fjármálafyrirtæki sé óheimilt að veita stjórnarmanni, lykilstarfsmanni eða þeim sem eiga virkan eignarhlut í því eða aðila í nánum tengslum við framangreinda lán eða aðra fyrirgreiðslu sem telst áhættuskuldbinding nema gegn traustum tryggingum. Ekki þarf að fjölyrða frekar um mikilvægi þessa ákvæðis, hvorki í ljósi rannsóknarskýrslunnar né atburða síðustu vikna.

Ákvæði um endurskoðendur er haft í frumvarpinu, bæði hvað varðar innri og ytri endurskoðun. Innri endurskoðun fær eðlilega stjórnskipulega staðsetningu innan fjármálafyrirtækis og sá tími sem endurskoðendur eru starfandi fyrir fjármálafyrirtæki er styttur.

Í 10. gr. er gert ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið setji reglur um hvað teljist heilbrigðir og eðlilegir viðskiptahættir. Í breytingartillögu nefndarinnar er fjármálafyrirtækjum gert að fylgja viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja og að birta þær bæði í ársskýrslu og á heimasíðu sinni. Í ljósi niðurstöðu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er nauðsynlegt að skerpa á nauðsyn þess að viðhafðir séu viðurkenndir og góðir starfshættir í fjármálafyrirtækjum sem þurfa svo mjög á því að halda að auka trúverðugleika sinn.

Í fyrirlestri á degi fjármálafyrirtækja í síðustu viku ræddi Salvör Nordal siðfræðingur um nauðsyn heilbrigðra starfshátta og minnti á að þar sem lögum sleppti tæki siðferði og dómgreind við. Í máli hennar kom fram að oft friðuðu fjármálafyrirtæki samvisku sína með því að styrkja íþrótta- og góðgerðarstarf en vanræktu samfélagslega skyldu sína gagnvart hagsmunum viðskiptavina sinna. Til að efla traust þarf að sjást að alvöru samfélagslegur ávinningur sé hafður að leiðarljósi. Traust og eigin hagsmunir togi oft í andstæðar áttir svo aðaláhersla á eigin hagsmuni er ekki til þess gerð að byggja upp traust. Þannig þurfa markmið um hámörkun hagnaðar og samfélagslegan ágóða að haldast þétt í hendur til að markmiðum eigendastefnunnar um uppbyggingu góðs orðstírs íslensks fjármálamarkaðar náist sem fyrst.

Víkjum nú að kaupaukagreiðslum og starfslokasamningum. Rannsóknarnefnd Alþingis telur að ýmislegt sem rekja má til starfs- og launasamninga í fjármálafyrirtækjum hafi verið til þess fallið að hvetja til aukinnar áhættusækni til skamms tíma og þar með til útlánastefnu sem gat orðið bankanum beinlínis skaðlegt. Það er því mjög til bóta að Fjármálaeftirlitið setji reglur um heimildir til slíkra gerninga og taki þar með mið af þróun á alþjóðavettvangi. Gert er ráð fyrir því að viðmið í útreikningi kaupaukakerfa skuli vera byggð á heildarafkomu fyrirtækjanna til langs tíma og það sama á við um starfslokasamninga. Sú er hér stendur hefði gjarnan viljað sjá gagnsætt framgangskerfi launa án kaupauka þar sem viðmiðin eru fyrir fram skilgreind og ákveðin í reglum sem fylgt er fast á eftir. Sú hálaunastefna sem rekin var í bönkunum frá 2002 er út úr öllu korti og í henni felst bullandi spillingarhætta. Hættum hér, skilgreinum nákvæmlega hvað á að vera falið í kaupauka um leið og við breytum áherslum í þá átt að það er ekki merkilegra að vinna með peninga en fólk.

Með þessu frumvarpi eru miklar skyldur lagðar á herðar eftirlitsaðilum og því ljóst að styrkja þarf þær stofnanir sem sinna hlutverki eftirlitsaðila eins og þurfa þykir. Að herða eftirlit léttir þó ekki ábyrgð af eigendum, stjórnendum, stjórnarfólki og starfsfólki fjármálafyrirtækja, löggjafanum eða framkvæmdarvaldinu. Allir aðilar þurfa að taka höndum saman um að efla fjármálafyrirtækin sem gegna afar mikilvægu hlutverki í nútímasamfélagi. Gleymum ekki að þar sem lögum sleppir taka siðferði og dómgreind við.

Í litlu riti frá 1913, Heilræði fyrir unga menn í verslun og viðskiptum eftir George H. F. Schrader stendur, með leyfi forseta:

„Þegar þú jafnar ágreining þá láttu stjórnast af siðferðistilfinningu, ekki lagabókstafnum. Með því muntu spara þér mikinn tíma og leiðindi og áreiðanlega allan málskostnað. Greiða gatan er vissust. Eina leiðin til að tryggja sér álit fyrir heiðarlega og hreina framkomu í viðskiptum er sú að kannast við yfirsjónir og bæta úr því sem áfátt var. Þeim manni er aldrei treystandi sem reynir að klóra yfir bresti sína.“

Og til að fá aðeins annan vinkil í stöðuna stendur á öðrum stað í þessu þarfa riti, með leyfi forseta:

„Lífið ekki eingöngu fyrir þá hugsjón að græða peninga. Þótt peningar séu þarfleg eign verður ætíð að hafa það hugfast að sá maður sem lifir fyrir peninga eingöngu verður tilfinningalaus, smásmugulegur og illa lyntur.“

Það frumvarp sem við ræðum hér vill tryggja anda Georges H. F. Schraders í íslensku viðskiptalífi með skýru regluverki.