138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[15:16]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er nokkuð á sömu slóðum og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson í þessu efni vegna þess að það stingur mann við athugun á frumvarpinu og við að hlusta á þær umræður sem fóru fram hér í gær og í dag að stóru vandamálin sem voru fyrir hendi í rekstri íslenskra fjármálastofnana, ef við tökum mið af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, eru ekki leyst í þessu efni með frumvarpinu. Hér er vissulega verið að taka á ýmsum tæknilegum atriðum, ýmsum útfærsluatriðum, og mér sýnist sumt vera til bóta. Ég er meira hugsi yfir öðrum atriðum en ég viðurkenni að margt af því kann að vera til bóta og verulegra bóta en engu að síður erum við að ganga frá löggjöf um fjármálamarkaðinn og það er blásið í lúðra og talað um mikilvæg framfaraskref á þessu sviði. En stóru vandamálin sem í rauninni grófu undan íslenska fjármálamarkaðnum eru ekki leyst með þessu, stóru vandamálin sem tengjast stöðu eigenda, stöðu stórra eignaraðila og slík atriði, eru áfram óleyst. Það veldur mér eins og hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni talsverðum áhyggjum.

Annað atriði sem ég vildi inna hv. þingmann eftir, og varðar kannski frekar starfið í nefndinni, er að hvaða leyti aflað var upplýsinga um stöðu endurskoðunarlöggjafar fjármálamarkaðarins innan Evrópusambandsins. Á því eina og hálfa ári sem liðið er frá því að fyrst var lagt af stað með undirbúning þessa frumvarps hefur auðvitað farið fram mikil umræða á þeim vettvangi sem mun hafa áhrif hér. Ég velti fyrir mér, kom það fram á vettvangi nefndarinnar hvar sú vinna væri (Forseti hringir.) stödd og að hvaða leyti er þetta regluverk í samræmi við það?