138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[16:24]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við þurftum enga rannsóknarskýrslu og við þurftum ekkert hrun þegar við tókum umræðu á sínum tíma um það hvernig við ætluðum að haga eignarhaldi á bönkunum. Það þurfti engar slíkar hamfarir til þess að eiga samræður í þingsal um það með hvaða hætti við ætluðum að standa að einkavæðingu bankanna. Þetta snýst bara um prinsippin. Þetta snýst um það prinsipp hvort við viljum að eignarhald á stóru bönkunum á Íslandi sé dreift eða ekki. Þurfa menn eitthvað frekar að ræða það? Þurfa menn að bíða eftir niðurstöðu þingmannanefndarinnar til að átta sig á því hvað menn vilja í því efni? Ég tel skynsamlegt að ganga þannig frá þessum málum að eignarhaldið verði dreifðara í framtíðinni, sama hvort félögin eru skráð eða ekki skráð.

Ég tel líka að setja eigi strangari reglur en þær sem eru til umræðu hér um viðskipti eigenda við bankana sjálfa. Mér finnst býsna langt gengið að vísa því öllu saman yfir til Fjármálaeftirlitsins þegar spurt er hvað séu traustar tryggingar. Mér finnst það býsna langt gengið.

Ef menn eru hér ekki að bregðast við því sem gerðist á haustdögum 2008 er ég bara að taka þátt í rangri umræðu. Þegar ég sé frumvarpið og les það sé ég frumvarp sem lagt er fram eftir að ráðgjafi ríkisstjórnarinnar vegna hrunsins út af fjármálafyrirtækjum skilaði skýrslu. Það er étið upp úr þeirri skýrslu ýmislegt sem er til bóta. Það kom fram í máli hv. þingmanns, sem er í andmælum við mig, að t.d. væri tekið á lánveitingum með tryggingum í bréfunum sjálfum. Já, það er eitt dæmi um mál sem horfir til framfara. Ég er ekkert að fordæma allt það sem er í þessu máli, það vantar bara stefnumörkunina. Það vantar svör við mörgum grundvallarspurningum, t.d. þeim sem ég er búinn að nefna hér svo ítrekað, viðskipti eigenda við bankana sjálfa, hámarkseignarhlutur og slíkir þættir. (Forseti hringir.) Þetta eru atriði sem fóru úrskeiðis og við hljótum að þurfa að ræða þegar við tökum þessi mál til umfjöllunar.