138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[16:41]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir ræðu hans. Ég vildi hins vegar fá að koma upp og benda á það sem hefur komið fram í máli formanns viðskiptanefndar og varaformanns og í mínu líka, þegar við fluttum framsögu okkar bæði í dag og í gær, að þetta er náttúrlega bara hluti af þeim breytingum sem eru fyrirhugaðar. Þetta byggir á átta liðum eða tillögum frá Kaarlo Jännäri á sínum tíma. Við erum þegar búin að fara í það að fækka ráðuneytum og sinna málefnum fjármálamarkaðarins, þetta er nú allt komið undir efnahags- og viðskiptaráðuneytið. Búið er að færa Seðlabanka Íslands undir sama ráðuneytið, þ.e. efnahags- og viðskiptaráðuneytið. Og núna erum við að fara í liði 3–5 sem varða einmitt valdheimildir Fjármálaeftirlitsins og hvernig það getur þá vonandi beitt sér af meiri krafti, útlánaskrá og strangari reglur um stórar áhættuskuldbindingar. Það er síðan áhyggjuefni hjá okkur sem sitjum í viðskiptanefnd að við verðum einhvern veginn að finna leið til að hvetja Fjármálaeftirlitið til að beita þeim valdheimildum sem verið er að gefa því núna með þessum breytingum og þeim sem það hafði áður, af meiri krafti. Og eitt af því sem Jännäri benti á var að nota þyrfti í miklu meira mæli vettvangskannanir hjá eftirlitsskyldum aðilum, raunar bara einhvers konar skattalögreglu eins og hjá Pútín í Rússlandi.

Síðan nefndi þingmaðurinn líka áhyggjur sínar varðandi innstæðutryggingarkerfið. Ég vil taka undir það og það var einmitt ein af ábendingunum hjá Jännäri að við yrðum að endurbæta það og skoða það. Það frumvarp, sem er inni í viðskiptanefnd núna, er mál sem ég hef mjög miklar áhyggjur af vegna þess að ég sé ekki annað en við séum að fara í nákvæmlega sömu fótsporin og við fetuðum hér þegar við settum síðast á innstæðutryggingarkerfi. Ég held að það sé (Forseti hringir.) eitthvað sem hv. þingmaður ætti einmitt að fylgjast mjög vel með af þeirri þekkingu sem hann hefur á þessum málaflokki (Forseti hringir.) og tryggja það að við gerum raunverulega bragarbót á innstæðutryggingarkerfinu en ekki bara svona til málamynda.