138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[16:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir það og þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir þessa athugasemd. Ég hef svo sem bent á það hér áður, og sagði þá að ég vonaðist til að Evrópusambandið hlustaði, að innlánstryggingakerfið þyrfti að vera eitt fyrir alla Evrópu, þannig að ef hrun er í einu landi grípi öll löndin inn í til þess að halda uppi trausti á innlánin í bankakerfinu. Síðan þarf það að vera þannig að það sé einhver stofnun sem fylgist með þessu öllu og sú stofnun geti stöðvað innlánsreikninga sem vaxa óeðlilega hratt, sérstaklega ef það er vegna mjög hárra innlánsvaxta sem eru alveg úr takti, svo að ég tali nú ekki um, eins og mér skilst að hafi gerst í Hollandi, að innlánsvextirnir á Icesave voru komnir upp fyrir útlánsvexti. Það þyrfti líka að vera almenn regla í Evrópusambandinu að innlán hafi alltaf forgang í þrotabú og það sé vitað fyrir fram og sett í reglur.

Þessu gætum við komið áleiðis til Evrópusambandsins og svo þyrftum við að kynna þeim þessa veilu í hlutabréfaforminu og koma inn þessari hugsun um gagnsæ hlutafélög þannig að eignarhald í hlutafélögum sé gagnsætt. Það er kannski aðalmeinið í þessu að menn eru að fela eignarhald og komast þannig fram hjá öllum reglum sem verið er að setja um virkan eignarhlut, tengda aðila o.s.frv. Svo er það náttúrlega annað sem menn þurfa líka að huga að. Menn þurfa að koma í veg fyrir að einhver geti unnið skemmdarverk. Segjum að einhver sé virkur og góður aðili, hluthafi, með hlutafélag. Síðan kaupir einhver í honum úti í heimi, segjum að þetta sé erlent fyrirtæki með góðan orðstír, svo kaupir einhver í honum sem ekki er góður. Á hann þá að teljast vondur af því einhver keypti í honum sem hann gat í rauninni ekki hindrað? Þetta er vandamál sem líka þarf að leysa.