138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[17:10]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir ræðuna. Það var mjög áhugavert að hlusta á hann. Varðandi síðustu orð hans bendi ég bara á að núna eru komin ákvæði í frumvarpið sem tryggja að við fáum upplýsingar um það hverjir kröfuhafarnir eru og ég vænti þess að hæstv. fjármálaráðherra ýti á græna takkann þar sem þetta eru tillögur meiri hlutans.

Þingmaðurinn bar upp margar spurningar. Það hefur verið mjög áhugavert að hlusta á umræðuna í dag, við erum svolítið farin að velta fyrir okkur spurningunni um hvers konar fjármálamarkaði við viljum. Við erum farin að ræða þetta í umræðunni um þetta mál. Ég hefði áhuga á að spyrja hv. þingmann hvort hann sé þeirrar skoðunar að við eigum að aðskilja viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.

Síðan spurði þingmaðurinn líka hvort eignarhaldið ætti að vera dreift eða ekki og ég hefði áhuga á að bæta við þessum spurningum: Hvaða máli skiptir hvort eignarhaldið er dreift eða ekki? Hvaða kosti sér þingmaðurinn við dreift eignarhald eða þá eignarhald þar sem eru fáir eða jafnvel einn eigandi eins og við sjáum fram á í einhverjum tilvikum? Það er nánast þannig með þá sparisjóði sem ríkið hefur yfirtekið, þar er ríkið komið með 95% eða jafnvel meira af eignarhaldinu á sparisjóðunum.

Ég spyr líka hvort þingmaðurinn sé ekki tilbúinn til að vinna með mér í viðskiptanefnd að því að tryggja að sett verði inn ákvæði um skuggastjórnendur þegar við tökum hlutafélagalögin sem fjármálafyrirtæki falla líka undir. Við höfum einmitt verið að ræða það og mjög áhugaverðar tillögur hafa komið fram þar. Líka vil ég að farið verði í endurskoðun á lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, þannig að við getum (Forseti hringir.) aukið eftirlitið og sett meiri kraft í FME og enn fremur á lögum nr. 99/1999 sem fjalla um gjaldtökuheimildir FME.