138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[17:15]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þetta upphaf að svörum hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni. Ástæðan fyrir því að ég kom sérstaklega í andsvar við þingmanninn var sú að í ræðu hans voru mjög margar spurningar en mér fannst hins vegar skorta svolítið á svörin þannig að ég vildi ganga eftir því hjá þingmanninum hver afstaða hans væri í rauninni.

Fyrst ég er hérna ætla ég líka að fá að upplýsa um a.m.k. mína afstöðu til málskotsréttarins. Ég er algjörlega ósammála því sem þingmaðurinn talaði um, að það ætti að stofna einhvers konar úrskurðarnefnd þannig að fjármálafyrirtæki gæti þá vísað því til þessarar úrskurðarnefndar og úrskurðarnefndin gæti tekið allt aðra afstöðu en Fjármálaeftirlitið og þar með tafið framkvæmd ákvarðana hjá Fjármálaeftirlitinu. Rannsóknarnefndarskýrslan gefur okkur einmitt nægan rökstuðning fyrir því af hverju við eigum að stytta þetta ferli og tryggja að Fjármálaeftirlitið geti framfylgt lögunum af krafti. Síðan eiga menn að sjálfsögðu rétt á því að fara með mál fyrir dómstóla. Yfirleitt hafa verið nægir fjármunir hjá fjármálastofnunum til að höfða mál og margir lögfræðingar hafa verið tilbúnir til að vinna fyrir bankana til að tryggja að þeir gætu á allan máta reynt að tefja og koma í veg fyrir að Fjármálaeftirlitið geti sinnt skyldu sinni sem er að tryggja heilbrigðan og eðlilegan rekstur fjármálastofnana á Íslandi.

Ég hlakka til að heyra nánar skoðanir þingmannsins á því hvers konar fjármálamarkað við viljum sjá á Íslandi.