138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[17:58]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir þessar spurningar og nota tækifærið til að þakka henni ágætt samstarf í viðskiptanefnd sem við höfum átt núna síðastliðna mánuði.

Það er rétt að ég hef mikið verið að velta fyrir mér þeim spurningum sem þingmaðurinn nefndi og ég ræddi í ræðu minni hér áðan einmitt um þessa fölsku öryggistilfinningu sem frumvarpið ber með sér. Ég held að það geti verið hættulegra en hitt að vera með reglur sem við vitum ekki hvort dugi til en að vera meðvituð um það að hér séu annmarkar og fara vel yfir það og finna út hvernig við getum leyst úr þeim.

Sparisjóðakerfið, eins og ég ræddi um í ræðu minni, sparisjóðamálið allt saman, er skólabókardæmi um þennan vanda. Ég hef miklar áhyggjur af því hvernig ríkið ætlar að fara út úr sparisjóðunum og ég efast um að það geti það. Eins og þingmaðurinn nefndi og við höfum rætt oft og ítrekað, bæði í nefndinni og hér í þessum sal, er enginn hvati fyrir nokkurn mann í þessum samfélögum sem hafa byggt svo mikið á þessum sjóðum og þessu fyrirkomulagi með kostum sínum og göllum. Þetta kerfi var ekki fullkomið, það er enginn að halda því fram, en það er mjög mikilvægt í þessum litlu samfélögum að hafa fjármálastofnun sem ber hag samfélagsins fyrir brjósti og samfélagið finnur sig knúið og finnur hvata hjá sér til þess að efla. Það var helsti kosturinn við sparisjóðakerfið. Sá kostur er að mínu viti farinn þegar ríkið er orðinn eini aðilinn í sumum tilfellum, 90% aðili í öðrum tilfellum. Þá sé ég ekki hvernig nokkur maður ætti að vilja fara inn sem stofnfjáreigandi (Forseti hringir.) með enga vissu fyrir því að ríkissjóður …