138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[18:00]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það liggi eiginlega orðið fyrir að áður en við afgreiðum þetta mál úr þinginu væri mjög gott ef við gætum komið á tvöfaldri ef ekki þrefaldri utandagskrárumræðu um einmitt pólitíska stefnumörkun hvers og eins stjórnmálaflokks á Alþingi um fjármálamarkaðinn. Hvers konar fjármálamarkað sjáum við fyrir okkur? Við þurfum að taka þessa umræðu, sem er að vísu búin að vera með ágætum innan viðskiptanefndar og innan t.d. þingmannanefndarinnar líka sem ég sit í, og koma með hana inn í þingsal. Við þurfum að gefa þingflokkunum ágætistíma til að undirbúa þessa umræðu þannig að við getum svarað þeim spurningum sem við erum búin að vera að ræða hérna í dag. Hvers konar fjármálamarkað viljum við hafa á Íslandi miðað við stærð og getu samfélagsins? Við verðum að fá skýra stefnumörkun, skýra sýn til þess að vinna síðan áfram löggjöfina um fjármálamarkaðinn.

Það er síðan önnur spurning sem ég hefði mikinn áhuga á að heyra svar þingmannsins við. Nú liggur fyrir breytingartillaga frá 2. minni hluta viðskiptanefndar, sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og Sigurður Kári Kristjánsson flytja, með ákvæði um að fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja sem bankar hafa yfirtekið skuli að vera lokið áður en 12 mánuðir eru liðnir frá því að starfsemi samkvæmt 1. málslið hófst. Mér líst ágætlega á þessa tillögu. Þingmaðurinn hefur hins vegar talað svolítið um þau tímamörk sem við höfum sett, eins og fimm ára hámarkstíma endurskoðenda að störfum fyrir fjármálafyrirtæki. Ef við mundum síðan samþykkja þessa reglu um 12 mánuði, á hverju byggjum við þennan tíma, að það sé akkúrat eitt ár (Forseti hringir.) sem er lengsti tíminn til að miða við um fjárhagslega endurskipulagningu? Gæti t.d. verið betra að horfa á tvö ár (Forseti hringir.) eða sex mánuði?