138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[18:02]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst aðeins út af seinustu spurningu hv. þingmanns. Ég tel mjög mikilvægt að þessi breytingartillaga verði samþykkt vegna þess að þar með setjum við pressu á bankana að koma þessum fyrirtækjum og þessari starfsemi sem á miklu betur heima í höndum einkaaðila í hendur annarra aðila en bankanna sem eru að lána þessum sömu fyrirtækjum. Það er til að skekkja ekki samkeppnisstöðu og til að tryggja að við komum lífi í efnahagslífið. 12 mánuðir eru engin töfratala, ekki frekar en fimm ár hv. viðskiptanefndar.

Ég held að þetta sé raunhæfur tími, ef hann er orðinn lengri eru bankarnir bara orðnir einhver rekstrarfélög sem ég tel að þeir eigi alls ekki að vera.

Varðandi pólitísku stefnumörkunina og tvö- eða þrefalda utandagskrárumræðu er ég algjörlega sammála hv. þingmanni um að það er nauðsynlegt að taka hana. Þetta er hins vegar alls ekki nógur tími. Og ég verð að lýsa mig ósammála hv. þingmanni, þessi umræða hefur ekki verið tekin af neinu viti í nefndinni. Við erum alltaf að flýta okkur. Við erum alltaf með gesti. Maður fær ekki orðið nema að með fylgi „örstutt“. Við náum aldrei að klára þessa umræðu.

Ég held að það væri miklu skynsamlegra, eins og ég sagði í lok ræðu minnar áðan, að við legðum þetta mál til hliðar í sumar, nýttum sumarið — mér leist vel á þessa nálgun hjá hv. þingmanni — til að fara þverpólitískt í það einmitt að svara grundvallarspurningunni: Hvar viljum við enda með þetta mál? Hvernig fjármálakerfi viljum við byggja upp? Það eru nefnilega tækifæri í þessu. Við höfum núna tækifæri til að byggja upp nýtt, byggja upp kerfi sem mun (Forseti hringir.) duga okkur og gagnast okkur til framtíðar. Við megum ekki láta það tækifæri fram hjá okkur fara með svona bútasaumi.