138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[18:30]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Ég verð nú að lýsa undrun minni á því að þingmenn stjórnarflokkanna skuli ekki vera tilbúnir að ræða hér um jafnmikilvægt mál og breytingar á lögum um íslensk fjármálafyrirtæki eru, með einni heiðarlegri undantekningu þó þar sem hv. formaður viðskiptanefndar situr hér í salnum (Gripið fram í: Og varaformaður.) og varaformaðurinn líka, það er nú ágætt.

Ég óttast það mest að með þessu frumvarpi þegar það nær fram að ganga, sé búið til til falskt öryggi til þess að telja almenningi trú um að búið sé að taka á stærstu vandamálunum sem upp hafa komið á undanförnum árum og leiddu til þess að bankakerfið hér hrundi. Ég hygg að það sé mikil blekking og að menn séu að blekkja sjálfa sig ef þeir halda að svo sé. Það er ekki hægt að afgreiða frumvarp um fjármálafyrirtæki öðruvísi en að gera það í samhengi við allan fjármálamarkaðinn og öll þau lög sem gilda um fjármálamarkaðinn. Ég vona að hv. þingmenn geri sér grein fyrir nauðsyn þess að fara í heildstæða vinnu á öllum þeim lögum sem gilda um íslenskan fjármálamarkað, allt frá Seðlabanka til Kauphallar, fjármálafyrirtækja o.s.frv.

Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni kemur það mér mjög á óvart að þessi ríkisstjórn norrænnar velferðar og félagshyggju skuli ekki gera minnstu tilraun til þess að setja inn ákvæði um eignarhald á bönkum þótt það væri ekki nema til að setja meginlínurnar til framtíðar þannig að menn vissu hvaða lög, hvaða reglur og hvaða umhverfi gilda hér þegar við komust aftur í eðlilegt umhverfi eftir eitt, tvö ár — og ef þessi ríkisstjórn lifir áfram, eftir fjögur, fimm ár. Það skiptir alveg gríðarlega miklu máli að við komum upp gegnsæjum, sanngjörnum og eðlilegum reglum um eignarhald fjármálafyrirtækja.

Ef við náum ekki að búa til slíkar reglur, sem geta verið einfaldar, er verkið hér hálfgerður óskapnaður. Ég velti því fyrir mér hvort það sé verr af stað farið en heima setið í þessum efnum, sérstaklega vegna þess að hér er verið að beita sjálfsblekkingum þegar kemur að því að breyta einhverju og auka öryggi og eftirlit.

En auðvitað er ríkisstjórninni vorkunn að geta ekki komið saman lagafrumvarpi sem tekur á eignarhaldi fjármálafyrirtækja eftir þessa furðulegu uppákomu í svokallaðri einkavæðingu bankanna tveggja, Arion og Íslandsbanka sem enginn veit hver á raunverulega. Ég skil að nokkru leyti að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra skuli ekki treysta sér til þess að setja skýrar reglur um hvort og þá hvernig takmarka eigi eignarhald aðila á fjármálafyrirtækjum. En það er auðvitað miklu fleira sem þarf að gera. Við þurfum líka að fara í gegnum innstæðutryggingarkerfið og við þurfum líklegast að setja inn í þetta frumvarp ákveðnar reglur og auknar kröfur á fjármálastofnanir, fjármálafyrirtæki, er varðar varasjóði. Bendi ég á að stjórnarformaður breska fjármálaeftirlitsins, Turner lávarður, hefur sagt að núverandi regluverk í kringum þarlenda banka í Bretlandi sé mjög gallað. Hann bendir m.a. á að það þurfi að skylda banka til að byggja upp sterka varasjóði sem þeir geti gripið til þegar illa árar.

Samkvæmt því frumvarpi sem hér liggur fyrir og samkvæmt öðrum frumvörpum sem bíða afgreiðslu hér á þingi verðum við í raun með ríkisrekið bankakerfi um aldur og ævi, bankakerfi sem rekið er á ábyrgð ríkisins og íslenskra skattgreiðenda. Ég bið hv. þingmenn að huga að því hvort reynsla okkar sé nú ekki þannig að við viljum girða fyrir slíkan ósóma.

Ég talaði um það í ræðu minni fyrr í dag að okkur vantaði mörg púsl til þess að myndin yrði heildstæð og til þess að við áttuðum okkur á því hvað við værum að gera. Eitt af því sem ég nefndi ekki en vantar inn í myndina er hvernig og með hvaða hætti erlendir bankar höguðu starfsemi sinni hér á landi, samskiptum sínum við innlendar fjármálastofnanir og við íslensk fyrirtæki, hvort þar kunni að vera einhver brotalöm sem við verðum að huga að.

Við verðum líka að huga að því með hvaða hætti matsfyrirtækin svokölluðu sem einu sinni nutu hér virðingar, höguðu starfsemi sinni hér á Íslandi. Við höfum mörg dæmi um að hin erlendu matsfyrirtæki sem nutu hér virðingar veittu íslenskum bönkum hæstu einkunn og það leiddi til ófarnaðar eins og við vitum.

Ég vil líka benda á að við þurfum að huga að því hvernig við ætlum að hafa áhrif á regluverk á Evrópska efnahagssvæðinu. Hvað hafa íslensk stjórnvöld lagt til í þeim efnum? Hafa þau eitthvað lagt til? Hafa þau gert einhverjar athugasemdir, formlega eða óformlega um að það sé innbyggður galli í regluverki Evrópska efnahagssvæðisins? Mér vitanlega hefur ekki verið upplýst hvort svo sé.

Vil ég þá vitna í orð Más Guðmundssonar seðlabankastjóra í erindi sem hann hélt ekki fyrir löngu á ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þar segir hann að skortur á eftirliti, því að þetta frumvarp gengur út á eftirlit, skýri ekki fyllilega bankahrunið hér á Íslandi. Hann taldi að menn væru ekki búnir að draga réttan lærdóm af hruni íslensku bankanna, m.a. göllum á regluverki Evrópu. Þetta þurfum við að fara yfir. Hvernig ætlum við að girða fyrir að gallar hins evrópska regluverks leiði okkur aftur í glötun?

Ég óttast að þetta frumvarp verði til þess að búa til falskt öryggi og að ríkisstjórnin láti staðar numið í stað þess að vinna heildstæða löggjöf um allt sem málið snýst um og ég hef áður (Forseti hringir.) vikið að.