138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[19:51]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef tekið til máls í þessari umræðu og rakið helstu sjónarmið sem liggja að baki áliti meiri hluta viðskiptanefndar og komið þar inn á fjölmörg atriði sem vert er að hafa í huga. En ég get hins vegar ekki orða bundist og mundi vilja fá að hnykkja á einu atriði sem ég fór ekki yfir í ræðu minni fyrr í dag. Það er umræðan um einkavæðingu bankanna og eins um það hverjir eiga bankana. Förum aðeins yfir það.

Það lá fyrir að ríkisvaldið ákvað að kaupa ekki bankana af raunverulegum eigendum þeirra sem eru að sjálfsögðu kröfuhafar bankans. Ríkið ákvað ekki að einkavæða bankana heldur ákvað það að kaupa ekki bankana. Þar með spöruðum við íslenska ríkinu um 180 milljarða kr. a.m.k. Það liggur síðan fyrir hverjir sitja í öllum stjórnum, þ.e. stjórnum nýju bankanna, eignarhaldsfélaganna, og hverjir sitja í skilanefndum og slitastjórnum gömlu bankanna. Það liggur jafnframt fyrir að kröfuhafar gömlu bankanna eru í raun og veru eigendur þeirra þótt þeir fari ekki með stjórn þeirra. Það er mikilvægt að hafa í huga að þegar spurt er um hverjir eiga bankana að ekki hefur verið tekin ákvörðun til réttmæti þeirra krafna sem liggja í þrotabúum bankanna. Það er ekki enn þá ljóst hvert hlutfall eða vægi hverrar kröfu er því að ekki er búið að taka afstöðu til hennar. Hins vegar er búið að slíta það samband sem er á milli kröfuhafanna og rekstrarins á innlendum fjármálamarkaði. Kröfuhafar bankanna koma ekki að stýringu þeirra banka sem þeir hafa með réttu eignarhald á vegna þess að kröfur þeirra voru í þrotabúið. Ríkið ákvað að kaupa ekki bankana og sparaði sér þar með 180 milljarða kr.