138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[21:00]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Það er alltaf jafngaman að hlusta á hann, hann er alltaf skörulegur þegar hann mætir í ræðustól. Hins vegar vil ég gjarnan rifja upp að þingmaðurinn sat í þeirri ríkisstjórn sem tók ýmsar ákvarðanir þegar hún stóð frammi fyrir því að bankakerfið væri að hrynja. Meðal annars voru samþykkt hérna neyðarlög, sem fóru þá í gegnum ríkisstjórnina sem þingmaðurinn sat í, þar sem forgangsröðun krafna var breytt.

Það var líka tekin ákvörðun um að endurreisa bankakerfið á grundvelli stærðar innlendra útlána í staðinn fyrir innlendra innlána. Ein afleiðingin af því er sú að í dag stöndum við hugsanlega uppi með allt of stórt bankakerfi. Ýmsir hafa líka bent á að við hrun bankanna misstu íslensk stjórnvöld hugsanlega af gullnu tækifæri til að afnema verðtrygginguna.

Ef þingmaðurinn hugsar núna til baka til þess þegar hann ýtti á græna takkann og samþykkti neyðarlögin, er eitthvað sem hann vildi hafa gert öðruvísi? Voru menn t.d. virkilega búnir að hugsa til enda hvað breytingin á forgangsröðun krafna þýddi fyrir endurreisn íslenska bankakerfisins? (Gripið fram í.) Við stöndum frammi fyrir því að það verður hugsanlega allt öðruvísi að gefa út skuldabréf fyrir íslensku bankana vegna þess að þeir sem kaupa skuldabréfin krefjast hærra álags á skuldabréfaútgáfuna vegna þess að þeir vita að þeir eru ekki í forgangi ef fyrirtækið fer á hausinn. Við erum líka með vangaveltur (Forseti hringir.) um endurreisn innstæðutryggingarkerfisins. Í framhaldi af ræðu þingmannsins væri mjög áhugavert (Forseti hringir.) að vita hvað hann hefði viljað gera öðruvísi eða betur við samþykkt neyðarlaganna.