138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[21:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir ágæta og yfirgripsmikla ræðu. Hins vegar saknaði ég þess sem hann kom inn á í blálok ræðunnar um stöðu sparisjóðanna. Af því að það kemur ekki fram í þessu frumvarpi eða neins staðar hvernig menn sjá fyrir sér einhverja framtíð spyr ég hann hvernig hann sjái fyrir sér framtíð sparisjóðanna. Hverju þarf að breyta, hverjir eiga að leggja fram stofnfé með þeim kvöðum sem fylgja? Mér skilst að það eigi að auka frekar en hitt. Hvaða fólk á að leggja fram stofnfé í sparisjóðina til að endurreisa þá að fenginni þeirri bitru og hörðu reynslu sem margir hafa lent í, að stofnféð er orðið verðlaust? Þetta finnst mér eiginlega vanta alveg inn í þetta frumvarp, einhverja sýn til fimm eða tíu ára. Það væri mjög áhugavert að vita hvort hv. þingmaður hefði velt þessu fyrir sér. Ég veit að hann komst ekki að vegna þess að ræðutími hans var búinn og þá má vel vera að hann ræði einmitt meira um þetta atriði því að ég veit að hv. þingmaður er mjög fróður um sparisjóðakerfið.