138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[21:32]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Frú forseti Það er að vissu leyti mjög ánægjulegt að heyra þingmanninn segja að þessi breytingartillaga sé til bóta. Ég sagði í framsögu minni að ég teldi nánast allar breytingartillögurnar sem meiri hlutinn lagði hérna fram til bóta. Ég benti hins vegar á það sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa síðan rætt, að ég hefði gjarnan viljað sjá, þótt það hefði kannski ekki verið í þessu frumvarpi, ákveðna stefnumörkun eða stefnu sem efnahags- og viðskiptaráðuneytið hefði gefið út um það hvers konar fjármálamarkað við sjáum fyrir okkur. Það er ástæðan fyrir því að ég legg sjálf fram breytingartillögu um að skipuð verði nefnd sem eigi að móta og koma fram með þessa pólitísku stefnumörkun og þá frekari tillögur um löggjöf um fjármálamarkaðinn og það sé horft á það hvernig við viljum byggja upp fjármálamarkað sem miðar við stærð og getu þjóðarbúsins. Það er af því sem ég hef haft miklar áhyggjur, eins og þegar við fjöllum um hvernig við ætlum að endurreisa innstæðutryggingarkerfið, að við horfum ekki raunverulega á hvað við ráðum við hér á landi.

Önnur spurning sem ég hef velt fyrir mér er hvers konar hlutabréfamarkað við getum raunverulega verið með á Íslandi miðað við reynslu okkar síðustu ár, hversu grunnur markaðurinn hefur verið. Eigum við að vera með sjálfstæða kauphöll þó að hún sé í samstarfi við kauphallir annars staðar á Norðurlöndunum? Ég fer einmitt í nefndaráliti mínu í gegnum mikilvægi þess að búa til raunverulegt blandað hagkerfi. Þess vegna finnst mér mjög áhugavert að velta fyrir mér því sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa sagt um mikilvægi þess að vera með dreift eignarhald á fjármálamarkaði. Ég er ekki svo viss um að það sé bara eitt rétt svar um (Forseti hringir.) eignarhald á fjármálafyrirtækjum, hvort það sé ekki frekar eins og með svo margt annað í lífinu (Forseti hringir.) að við viljum hafa fjölbreytni á eignarhaldi og á fjármálamarkaði.