138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 127/2007 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

490. mál
[22:20]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 127/2007, um breytingu á XX. viðauka EES-samningsins sem er um umhverfismál.

Á fund utanríkismálanefndar komu Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneyti og Glóey Finnsdóttir frá umhverfisráðuneyti og skýrðu efni tillögunnar.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 127/2007, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES- samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/18/EB frá 12. mars 2001 um sleppingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 90/220/EBE. Jafnframt að fella inn í samninginn sex aðrar ákvarðanir framkvæmdastjórnar ESB eða ráðsins sem varða framkvæmd tilskipunarinnar.

Tilskipuninni er ekki ætlað að koma í veg fyrir sleppingu og markaðssetningu erfðabreyttra lífvera. Hún kveður á hinn bóginn á um ítarlegri málsmeðferðarreglur en eldri tilskipun gerði. Ekki er síst mikilvægt að kveðið er á um aukinn rétt almennings til að koma að málum áður en lokaákvörðun um að veita leyfi er tekin.

Við samningu tilskipunarinnar var tekið sérstakt mið af varúðarreglunni og kveðið á um að taka beri tillit til hennar þegar tilskipunin komi til framkvæmda. Varúðarreglan er meginregla í umhverfisrétti sem er m.a. að finna í 15. meginreglu Ríó-yfirlýsingarinnar. Hún felur í sér að þegar fyrir hendi er vísindaleg óvissa um afleiðingar framkvæmda fyrir umhverfið skuli náttúran njóta vafans.

Ákvarðanirnar sex sem varða framkvæmd tilskipunarinnar varða eftirfarandi þætti:

Hvernig beri að framkvæma áhættumat vegna sleppingar erfðabreyttra lífvera út í umhverfið bæði í tilraunaskyni og til markaðssetningar.

Önnur ákvörðunin er um leiðbeiningar um hvernig staðið skuli að þessari vöktun umhverfisins í samræmi við kröfur sem gerðar eru í tilskipuninni um að umsækjendur um vísvitandi sleppingu á erfðabreyttum lífverum út í umhverfið haldi uppi vöktun til þess að finna og rekja hugsanleg bein eða óbein skaðleg áhrif þeirra á umhverfið.

Í þriðju ákvörðuninni er kveðið á um eyðublað fyrir samantekt upplýsinga sem umsækjendum um leyfi til markaðssetningar á erfðabreyttri lífveru eða erfðabreyttum lífverum í afurðum er skylt að nota.

Í fjórðu ákvörðuninni er kveðið á um eyðublað fyrir samantekt tilkynninga um sleppingu erfðabreyttra lífvera í öðrum tilgangi en að setja þær á markað.

Fimmta ákvörðunin kveður á um eyðublað fyrir niðurstöður er varða sleppingu erfðabreyttra háplantna út í umhverfið í öðrum tilgangi en að setja þær á markað.

Sjötta ákvörðunin er um nákvæma tilhögun við vinnslu skráa yfir upplýsingar yfir erfðabreytingar á erfðabreyttum lífverum. Tiltekið er nákvæmlega hvaða upplýsingar eiga að koma fram og að um tvær skrár sé að ræða, eina sem skal vera opinber almenningi og aðra sem er aðgengileg yfirvöldum ríkja og inniheldur trúnaðarupplýsingar.

Innleiðing tilskipunar 2001/18/EB kallar á breytingar á lögum nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur. Frumvarp þess efnis hefur þegar verið lagt fram á Alþingi og tekið til 1. umr. og er nú til meðferðar hjá umhverfisnefnd.

Utanríkismálanefnd var einhuga í afgreiðslu á málinu og leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.