138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

394. mál
[22:48]
Horfa

Frsm. iðnn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti iðnaðarnefndar um frumvarp iðnaðarráðherra til laga um breytingu á lögum nr. 75/2007, um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á sinn fund Svein Þorgrímsson frá iðnaðarráðuneyti. Sjö umsagnir bárust um frumvarpið. Sex þeirra voru efnislega sammála frumvarpinu eða gerðu ekki athugasemdir við það en í umsögn frá Bændasamtökunum var gagnrýnd sú tillaga að fækka stjórnarmönnum úr sjö í sex og þar með fulltrúum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Nefndin styður hins vegar þá tillögu að fækka í stjórninni en breytingin er gerð til samræmis við sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyta í eitt ráðuneyti árið 2008. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að verksvið stjórnarinnar er fyrst og fremst að setja fagráðum Tækniþróunarsjóðs verklagsreglur en ekki að gæta hagsmuna tiltekinna atvinnugreina. Það er grundvallaratriði í þessu samhengi að það er ekki hlutverk stjórnar heldur fagráða Tækniþróunarsjóðs að leggja mat á umsóknir um styrki og leggja fram tillögur um úthlutun styrkja.

Skipan stjórnarinnar er annars með þeim hætti að iðnaðarráðherra skipar einn fulltrúa án tilnefningar, einn samkvæmt tilnefningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, einn samkvæmt tilnefningu tækninefndar Vísinda- og tækniráðs, einn samkvæmt tilnefningu Samtaka iðnaðarins og tvo samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins. Iðnaðarráðherra skipar formann og varaformann stjórnar.

Með frumvarpinu er lögð til sú breyting að stjórnarmenn séu skipaðir til tveggja ára í senn í stað þriggja áður og þeim verði einungis heimilt að sitja tvö tímabil í einu en í gildandi lögum eru engin tímamörk á því hve mörg tímabil stjórnarmenn geti setið. Nefndin telur að þessi breyting sé mjög til bóta, hún stuðli að hraðari endurnýjun jafnt stjórnarmanna og væntanlega hugmynda, sem er mikilvægt í stjórn sjóðs sem fjallar um tækniþróun og nýsköpun.

Nefndin telur hins vegar að mikilvægt sé að tryggja sem kostur er samfellu í vinnu stjórnarinnar og mælir því gegn því að skipt sé um alla stjórnarmenn í einu heldur verði einungis helmingi stjórnarmanna skipt út í hvert sinn. Nefndin leggur því til að við frumvarpið verði bætt nýju ákvæði til bráðabirgða þess efnis að við skipun í stjórn Tækniþróunarsjóðs fyrir 1. september 2010 skuli þrír menn skipaðir til eins árs. Skal það ár teljast sem eitt tímabil. Þetta á þó ekki við um þann sem ráðherra skipar án tilnefningar.

Iðnaðarnefnd leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingartillögu sem ég reifaði hér að framan.

Undir nefndarálitið rita Skúli Helgason, Jón Gunnarsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Tryggvi Þór Herbertsson, Anna Margrét Guðjónsdóttir og Björn Valur Gíslason.