138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[23:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta iðnn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti iðnaðarnefndar í máli nr. 320 um heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

Iðnaðarnefnd fjallaði um þetta frumvarp að nýju eftir 2. umr. og fékk á sinn fund Ingva Má Pálsson frá iðnaðarráðuneyti og Sigurð Tómas Magnússon, lögfræðilegan ráðgjafa sérstaks saksóknara.

Nefndin ræddi sérstaklega þau ákvæði 1. gr. frumvarpsins sem lúta að gildistíma samningsins. Það var grundvallarsjónarmið í nefndinni að mikilvægt væri að þessu leyti að gæta samræmis á milli þessa frumvarps og nýs frumvarps iðnaðarráðherra um ívilnanir vegna nýfjárfestinga með þeim rökum að mikilvægt væri að jafnræðis væri gætt milli gagnavers Verne Holdings ehf. og þeirra gagnavera sem kunna að sækjast eftir ívilnunum stjórnvalda í framtíðinni. Við nánari skoðun í nefndinni kom fram að ekki væri fullkomið samræmi milli þessara frumvarpa varðandi orðalag um gildistímann. Í frumvarpinu um ívilnanir er kveðið á um að ívilnanir miðist við 10 ár frá því er skattskyldar tekjur myndast af viðkomandi verkefni og leggur meiri hluti iðnaðarnefndar til að sama viðmiðun gildi í frumvarpinu um gagnaverið í Reykjanesbæ þannig að ívilnanir gildi í 10 ár frá því að skattskyldar tekjur myndast, þ.e. frá því að fyrirtækið er farið að skila skattskyldum hagnaði.

Rekstraráætlanir félaganna sem hyggja á rekstur gagnaversins Verne Holdings ehf. og Verne Real Estate ehf. gera ráð fyrir að verkefnið verði farið að skila hagnaði innan tveggja til þriggja ára frá undirritun samningsins. Iðnaðarnefnd vill hins vegar slá þann varnagla að sett verði þak á hámarksgildistíma samningsins þannig að hann verði aldrei lengri en 13 ár frá undirritun samnings jafnvel þó að fyrrnefndar rekstraráætlanir gangi ekki eftir. Slíkt þak er reyndar ekki í frumvarpinu um ívilnanir en ég mun beita mér fyrir því sem formaður iðnaðarnefndar að í meðförum nefndarinnar á því frumvarpi verði lögð fram sambærileg breytingartillaga um hámark gildistíma.

Við þessa breytingu, þar sem samningstíminn getur nú orðið allt að 13 ár, leggur meiri hluti nefndarinnar jafnframt til að c-liður 1. tölul. 1. mgr. í 4. gr. frumvarpsins taki aftur gildi en þar er kveðið á um hámark tekjuskattshlutfalls eftir fyrstu 10 ár samningsins. Þar er ákveðið hámark á tekjuskattshlutfallið við 25% sem mundi þá gilda frá 10. til 13. árs frá undirritun samnings.

Rétt er að árétta við þessa breytingu að gildistími samningsins lengist um allt að þrjú ár. Þá eykst jafnframt áætlað verðmæti ríkisaðstoðarinnar. Verðmæti hennar, eins og hún kemur fram í fjárfestingarsamningnum, er nú áætlað 4 milljónir bandaríkjadala, eða 0,55% af fjárfestingarkostnaði. Reiknuð hlutdeild Novators er ríflega fimmtungur af þeim hlut eða 0,12% af heildarfjárfestingarkostnaði en það leggur sig á 872.000 bandaríkjadali eða ríflega 115 millj. kr. Þetta er sú fjárhæð sem Novator mun framselja til íslenska ríkisins í samræmi við samkomulag sem náðst hefur milli stjórnvalda og Novators um að sá síðarnefndi muni ekki hafa beinan fjárhagslegan hag af þessum fjárfestingarsamningi í ljósi aðildar aðaleiganda þess, Björgólfs Thors Björgólfssonar, að þeirri atburðarás sem leiddi til bankahrunsins á Íslandi haustið 2008. Þvert á móti mun Novator greiða til ríkisins fjármuni sem er reiknuð hlutdeild fyrirtækisins sem hluthafa í ávinningnum af þessum samningi.

Þar fyrir utan felur samkomulagið í sér að ef Novator á síðari stigum selur hlut sinn í fyrirtækinu með söluhagnaði mun ríkið jafnframt fá sömu hlutdeild af þeim hagnaði eins og af eignarhlut Novators. Endurgreiðslurnar til ríkisins munu því að lágmarki nema 115 millj. kr. á núverandi gengi en sú upphæð gæti hæglega orðið mun hærri ef til þess kemur að Novator selur sinn eignarhluta með hagnaði á gildistíma samningsins.

Virðulegi forseti. Þetta mál, um heimild til ráðherra að gera fjárfestingarsamning við Verne um að reisa og reka gagnaver í Reykjanesbæ, er margslungið. Fáir mæla því mót að það er afar dýrmætt við núverandi aðstæður í efnahags- og atvinnumálum að fá inn í landið erlenda fjárfestingu að verðmæti 94 milljarða kr. sem geta skapað 200 bein störf og allt að 330 afleidd störf eða allt að 530 störf alls á Suðurnesjum, því svæði landsins þar sem hlutfall atvinnulausra er það hæsta á landinu öllu. Stjórnvöld hafa sérstökum skyldum að gegna við það fólk sem misst hefur atvinnuna í þrengingunum sem fylgdu bankahruninu og við erum sannarlega að rækja þær skyldur með því að samþykkja þetta frumvarp. Það hefur hins vegar flækt þetta mál verulega að einn af hluthöfum þessa fyrirtækis sem ber verkefnið uppi, Verne Holdings ehf., er einn aðaleigenda Landsbankans sem hrundi og þar með einn af þeim sem báru ábyrgð á aðgerðum og athöfnum sem grófu undan bankanum með þungbærum afleiðingum fyrir landsmenn.

Eðlilegt er að spurt sé: Er rétt af stjórnvöldum að gera samninga við slíka einstaklinga nú þegar staðreyndir bankahrunsins liggja ljósar fyrir eins og sjá má í vandaðri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis? Sú spurning á fullan rétt á sér og ég hef sannarlega spurt mig hennar sjálfur. Við gerðum meira en það í nefndinni við ítarlega umfjöllun um þetta mál. Við könnuðum það m.a. til hlítar hvort stjórnvöld hefðu stöðu til að krefjast þess að Novator afsalaði sér sínum hlut með sölu eða framsali í ljósi viðkvæmrar stöðu aðaleiganda þess. Það var niðurstaða okkar að sú leið væri ófær af tveimur ástæðum. Annars vegar vegna þess að í gildi er samkomulag milli stofnhluthafa Vernes og nýs hluthafa, sem mun reyndar fjármagna þetta verkefni að stærstum hluta héðan í frá, breska góðgerðasjóðsins Wellcome Trust, en það samkomulag kveður á um að enginn af stofnhluthöfum Vernes hverfi á braut við það að Wellcome Trust komi inn með nýtt hlutafé og eignist stærstan hlut í félaginu. Hins vegar, og það vegur vitanlega þyngra, var það niðurstaða okkar að slík einhliða aðgerð af hálfu stjórnvalda mundi brjóta í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar um jafnræði og er sú niðurstaða m.a. studd með vísan til lögfræðiálits frá lögmannsstofunni Lex sem iðnaðarráðuneytið óskaði eftir og var dreift á fundi iðnaðarnefndar.

Með þessa vitneskju í huga má segja að þrír kostir hafi verið eftir í stöðunni. Í fyrsta lagi að samþykkja frumvarpið óbreytt, í öðru lagi að hafna því og í þriðja lagi að finna sáttaleið, eins konar samnefnara milli þeirra sjónarmiða um atvinnusköpun og siðferðilega ábyrgð sem ég lýsti hér að framan. Ég tel að fyrsti kosturinn, að samþykkja frumvarpið óbreytt, hafi verið siðferðilega óverjandi. Með því væri nefndin að líta fram hjá siðferðilega þættinum og ábyrgð eigenda og stjórnenda bankanna í aðdraganda bankahruns. Ég tel í öðru lagi að sú leið að hafna frumvarpinu sé óverjandi á þessum tímum mikils atvinnuleysis, sérstaklega á Suðurnesjum — 1.600 manns eru þar án atvinnu, 947 karlar, 643 konur, með verulega skertar ráðstöfunartekjur en það sem verra er með brotna sjálfsmynd og oft og tíðum fjölskyldulíf í uppnámi.

Þriðja leiðin, og sú sem stjórnvöld ákváðu að fara, var að leita samninga við aðaleiganda Novators og niðurstaðan varð sú að hann mundi ekki njóta neins fjárhagslegs ávinnings af þessum samningi sem slíkum með vísan í þá ábyrgð sem hann eins og aðrir stjórnendur og eigendur bankanna bera gagnvart þjóð sinni á hruni fjármálakerfisins haustið 2008. Með þessari leið erum við að styðja þá atvinnusköpun sem leiðir af verkefninu en jafnframt að senda skýr skilaboð um að við viljum að þeir sem fóru offari í fjárfestingum, lántökum og skuldsetningu sem ábyrgðaraðilar í bankakerfinu gangist við ábyrgð sinni og byrji að greiða skuld sína við samfélagið til baka. Vitanlega er þetta samkomulag engin yfirlýsing um sekt eða sýknu eða refsivert athæfi viðkomandi aðila. Það er ákæruvaldsins og dómstólanna að kveða upp úr með það. Þau mál eru í sínum farvegi sem ég tel að sé góður eins og atburðir síðustu vikna sýna.

Virðulegi forseti. Hlutverk Alþingis er að setja lög. Alþingi er ekki dómsvald og við getum ekki gengið á svig við grundvallarreglur réttarríkisins og réttindi borgaranna, þar á meðal um að hver maður skuli vera saklaus uns sekt er sönnuð. Okkur ber hins vegar skylda hér á Alþingi til að læra af biturri reynslu af bankahruninu og það er því fyllilega eðlilegt að við freistum þess í störfum okkar að leggja ákveðinn grunn að heilbrigðari viðskiptaháttum í atvinnulífinu. Það er sannfæring mín að við eigum að vinna að endurreisn pólitísks og viðskiptalegs siðferðis í landinu, siðferðis þar sem ábyrgð fylgir réttindum, þar sem einstaklingar standa reiknisskil skulda sinna, þar sem menn taka afleiðingum gjörða sinna. Hinir svokölluðu útrásarvíkingar munu mæta örlögum sínum í dómskerfinu fyrr eða síðar. Siðferðilegur vandi löggjafans og framkvæmdarvaldsins er hins vegar þessi: Hvernig á það að haga samskiptum sínum við þann hóp manna sem var áberandi í íslensku fjármálakerfi og viðskiptalífi á sínum tíma og má með sterkum rökum segja að beri sína ábyrgð á bankahruninu en hefur hins vegar ekki hlotið neinn dóm fyrir refsivert athæfi? Eiga stjórnvöld fortakslaust að hafna því að ganga til samninga við þá einstaklinga og ef svo er hvar liggja rökin milli þeirra sem eru þóknanlegir og hinna sem eru það ekki?

Ef við setjum tiltekna einstaklinga á svartan lista í verkefnum með beinni aðkomu stjórnvalda hvað á þá að gera við önnur verkefni og félög sem sömu einstaklingar tengjast í íslensku atvinnulífi? Í tilviki Björgólfs Thors Björgólfssonar eru þetta félög eins og Actavis, Nova og CCP, sem hlaut á dögunum útflutningsverðlaun forseta Íslands.

Þetta frumvarp, þessi sáttatillaga iðnaðarnefndar, er táknrænt og mikilvægt skref í rétta átt fyrir Alþingi en meira þarf að fylgja í kjölfarið. Næsta mál á dagskrá iðnaðarnefndar er frumvarp um ívilnanir vegna nýfjárfestinga og þar gefst okkur tækifæri til að setja almenn skilyrði um veitingu ívilnana sem taka mið af þeim fordæmalausu atburðum sem hafa orðið í samfélagi okkar með bankahruninu. Ábyrgð okkar er mikil og það er mín skoðun að Alþingi eigi að taka siðferðislega forustu ef við viljum raunverulega breyta hlutum í íslensku viðskiptalífi. En stóra málið í mínum huga er reyndar það að nauðsynlegt er að móta almenna stefnu um samskipti stjórnvalda og útrásarvíkinganna og þar tel ég að rétti vettvangurinn sé þingmannanefndin sem nú vinnur með hina merku skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Virðulegi forseti. Gagnaver verður kærkomið innlegg í atvinnumál á Suðurnesjum og getur rutt brautina fyrir nýja umhverfisvæna atvinnustarfsemi á Íslandi. Fleiri slík fyrirtæki horfa til þess hvernig til mun takast í þessu verkefni og gætu fylgt í kjölfarið ef vel tekst til. Við eigum að taka þessari fjárfestingu fagnandi, hún er fyrsta stóra erlenda fjárfestingin í nýju verkefni eftir bankahrun og með samkomulaginu við Novator er stigið mikilvægt skref í átt til þess að auka vægi viðskiptasiðferðis í samskiptum stjórnvalda og atvinnulífs.

Undir þetta nefndarálit rita Skúli Helgason, Björn Valur Gíslason, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Þuríður Backman, Anna Margrét Guðjónsdóttir, Jón Gunnarsson, með fyrirvara, og Tryggvi Þór Herbertsson, með fyrirvara.