138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[23:30]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Hér er með sanni mál sem ríkisstjórn og ríkisstjórnarþingmenn, með dyggri aðstoð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, hafa þurft að beita skapandi hugsun við að koma í gegnum þingið. Þetta er líka þannig mál að það er erfitt að réttlæta fyrir sér að styðja það eins og það lítur út á lokastigum hér í þinginu.

Ég vil nefna nokkur atriði sem mig svíður undan: Það vita það allir sem hér sitja að það getur ekki verið rétt að verðlauna þá aðila sem tóku með einbeittum brotavilja þátt í því að koma þjóðinni í þá háskalegu stöðu sem við erum í. Hvernig er hægt að réttlæta að maður sem einsýnt er, samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að flokkast undir að vera fjárglæframaður, fái yfir höfuð að halda áfram að fjárfesta í framtíð landsins? Og ekki nóg með það, það á að veita honum skattaívilnanir. Nú kunna aðrir þingmenn að réttlæta þennan fáránlega gjörning með því að blessaður maðurinn hafi afsalað sér afslætti í tíu ár og hafi skrifað auðmjúkt afsökunarbréf til þjóðarinnar. Flestir réttlæta þetta fyrir sér með því að mikið atvinnuleysi sé í Reykjanesbæ og því verði þetta mikil búbót og um mörg störf sé að ræða.

Það verður þó að segjast eins og er, ágæti forseti, að enginn virðist hafa hugmynd um hve mörg störf skapast eða hvernig störf þetta eru. Það hlýtur að vera hægt að finna aðra lausn. Kannski væri lag að aðstoða íslensk fyrirtæki sem vilja setja upp smærri einingar af gagnaverum með því að gefa þeim sambærilega skattafslætti og líta svo á að þau erlendu fyrirtæki sem hér munu hýsa gögn sín hafi um fjölbreytta kosti að velja í hýsingu og komi þar af leiðandi inn með fjölbreyttari störf sem slíkt umhverfi getur leitt af sér. Ég vil vekja athygli á því að málið minnir mig á sögu sem hefur verið spunnin áfram af spunameisturum, og kannski eru þeir spunameistarar í stjórn fyrirtækisins sem vill byggja gagnaverið og tengjast flokki með völd — ó, hve dásamlegt þetta fjórflokkakerfi er, allir fá einhvern tímann tækifæri til að hygla sér og sínum.

Það að geta ekki hugsað handan stóriðju, hvort heldur hún heitir álver eða gagnaver, er sorgleg þróun. Sorgleg vegna þess að ef þetta fyrirtæki gengur illa þá mun hlutaðeigandi sveitarfélag aftur líða fyrir stórmennskudrauma sem breyttust í martröð. Ég hef hugleitt mikið hvernig hægt væri að bregðast við afleiðingum þess sem maðurinn hefur gert, maðurinn sem á að fá að halda áfram að fjárfesta í íslensku vinnuafli og nota þjóðina sem veð. Ég hef mikið hugleitt, frú forseti, hvort það sé virkilega svo að það sé bara ein leið fær. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að svo er ekki. Það er aldrei bara ein leið fær. Mörg lítil og meðalstór fyrirtæki eru miklu öruggari leið til að viðhalda stöðugleika en ein risalausn. Ef eitt meðalstórt fyrirtæki af mörgum rúllar mun það hafa lítil áhrif á samfélagið, en ef fyrirtæki gerast svo stór að þau geta ekki axlað ábyrgð af óráðsíu eins og við upplifum nú lendir baggi einkafyrirtækjanna á þjóðinni — þau fá afskriftir sem lenda síðan á skattborgurunum og bökin eru nú orðin ansi fá og veikburða sem eiga að taka við öllum þeim byrðum. Við getum ekki leyft okkur að halda svona áfram.

Frú forseti. Hvernig hefur verið staðið að því að finna annan aðila til að fjárfesta í þessu gagnaveri, annan aðila en Björgólf Thor og fyrirtæki hans? Ég veit að þessa spurningu hefur borið á góma en ég hef ekki fengið nægilega skýr svör við henni. Ég mundi með sanni styðja þetta mál ef Björgólfur Thor hefði sýnt þann manndóm að sleppa tökunum af þessum draumi og gefið öðrum kost á að fjárfesta í sinn stað. Best væri hreinlega, ef halda á áfram að gefa manninum gulleggin okkar, að bíða í það minnsta uns rannsóknin á gamla bankanum hans er yfirstaðin. Ég get ekki stutt þetta verkefni vegna þess að mig hreinlega svíður undan þessu í minni réttlætiskennd. Er þetta nýja Ísland, frú forseti, er þetta sá hornsteinn sem við viljum leggja?

Ef Björgólfur Thor fær enn að fjárfesta í framtíð Íslands, þrátt fyrir það sem kemur fram í skýrslunni, verður varla hægt að segja nei við hina fjárglæframennina. Og til hvers þá að vera með einhverja sýndarmennsku varðandi réttarhöld og handtökur? Hættum þessu bara og látum strákana okkar aftur við stjórnartaumana og leyfum þeim að halda áfram í útrás og innrás. Mér skilst að ríkissjóður hafi ábyrgst nokkurra milljarða lán út af Farice-strengnum sem flytja á gögnin á milli landa og móðurfélag Verne Holdings fékk lán upp á nokkur hundruð milljónir sem nú er verið að afskrifa. Það mun því falla á herðar skattborgaranna eins og svo mörg önnur ævintýri út- og innrásarvíkinganna. Er ekki mál að linni, frú forseti?

Ég skora á þingmenn að kanna innra með sér af hverju þingið nýtur ekki meiri trausts en svo að aðeins 1 af hverjum 10 Íslendingum treystir þingheimi eins og kom fram í skoðanakönnun í dag. Gæti það verið út af því að svona vinnubrögð sýna skort á siðgæði og almennri skynsemi?

Frú forseti. Er ekki mál að vitleysunni linni og að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar beiti örlítið meiri skapandi hugsun til að koma í veg fyrir að þeir sem rændu okkur fái að halda áfram að ræna okkur? William Black sagði: Til að ræna þjóð skaltu eignast banka. Nú er það svo að við vitum ekki hverjir eiga nýju bankana, vitum ekki hvort Magma Energy er skúffufyrirtæki bankaræningja en áfram heldur leikurinn og enn og aftur líður almenningi sem nóg sé komið en engin björg sé í boði nema taka þessari siðblindu. Sýnum þjóðinni aðeins meiri virðingu en þetta, sýnum hugrekki, og höfnum því að gefa bankaræningja gullið úr tönnum okkar því að við eigum ekkert meira eftir að gefa. Nú, þegar enn og aftur er verið að seilast í tóma vasa öryrkja og ellilífeyrisþega til að borga fyrir sukkið hjá sama aðila og við erum að gefa tækifæri til að fjárfesta áfram, er mál að linni.