138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[23:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hef tekið þátt í þessari umræðu á öllum stigum og ætlaði svo sem ekki að taka til máls núna en orð hv. þm. Birgittu Jónsdóttur ýttu aðeins við mér.

Ég vil byrja á því að segja að ekki er einhugur um afgreiðslu þessa máls í þingflokki framsóknarmanna. Það er því ekki rétt að Framsóknarflokkurinn hafi hleypt málinu áfram, það er ekki þannig. Sá sem hér stendur hefur hins vegar hleypt því áfram og hefur stutt það með fyrirvara fram að þessu. Það er reyndar vika enn þar til við afgreiðum þetta í atkvæðagreiðslu, mönnum gefst tækifæri til að hugsa málið.

Frú forseti. Fyrst ég er kominn hingað ætla ég að fara nokkrum orðum yfir málið. Það er auðvitað ekki af ánægju einni sem ég hef fylgt þessu máli eftir og sagt að ég vilji hrinda því í framkvæmd. Það er ekki af neinni ánægju sem það er gert ef horft er til þess hverjir koma að því, alls ekki. Það er, eins og ég hef áður sagt, óbragð í munninum, það verður bara að játast, það er þannig. En það eru aðrar hliðar sem verið er að vega og meta sem ég hef í það minnsta fram að þessu sett jafnhliða og látið ráða för.

Við getum ekki heldur horft fram hjá því, frú forseti, að ríkisstjórn, sú er nú situr, hefur í meira en ár talað um að nú sé allt alveg að fara af stað, atvinnuuppbygging sé fram undan o.s.frv. Það hefur hins vegar staðið á öllu slíku. Það hefur staðið á stóru orðunum, staðið á því að þau verkefni sem rætt er um verði að veruleika. Við höfum í dag m.a. rætt um Magma Energy og allt sem því fylgir. Þar hefur komið í ljós að misvísandi skilaboð eru gefin af hálfu ríkisstjórnarinnar o.s.frv. Það er mjög mikilvægt, frú forseti, að eitthvað verði til þess að brjóta ísinn þannig að við förum að sjá atvinnusköpun hér á landi eftir hið hræðilega bankahrun. Það er kannski sá þáttur sem einna helst fær mann til þess að vera örlítið jákvæðari en neikvæðari gagnvart þessu verkefni og það er nákvæmlega það að við okkur hefur verið sagt, af aðilum sem vinna við að laða að fjárfesta, að þetta verkefni skipti miklu máli í því sambandi.

Það verður hins vegar ekki vikist undan því, eins og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir benti réttilega á, og eins hv. þm. Þór Saari, að þessu verkefni tengjast aðilar sem ég hef ekki trú á að nokkurt okkar vilji eiga viðskipti við, því miður er það þannig. Hver þingmaður verður að sjálfsögðu að vega og meta afstöðu sína út frá því. Ég tek ekki undir það, ef einhver hér vill tala á þeim nótum, að einhverjir hafi betri samvisku en aðrir í þessum sal. Ég held að það sé ekki þannig. Þetta er einfaldlega þannig að við horfum á þessa hluti út frá ákveðnum forsendum og út frá ákveðnum lausnum og slíku. Að mínu mati getum við ekki beðið lengur eftir því að stóru orð ríkisstjórnarinnar verði að veruleika. Þetta er kannski ekki besta verkefnið til þess að byrja á, klárlega ekki, en í því felast ákveðin tækifæri. Ég vona svo sannarlega að þeir aðilar sem eitthvað hafa brotið af sér og tengjast þessu fái dóma við hæfi og verði með einhverjum hætti látnir greiða fyrir það sem þeir hafa gert íslensku samfélagi. Ég mun ekki draga af mér við að reyna að láta það verða að veruleika.

Bent hefur verið á ákveðin tengsl stjórnmálaflokka við þessa aðila. Ég ætla ekki að draga úr því. Ég hef líka velt þeim tengslum fyrir mér, það er alveg ljóst. En alltaf er það nú þannig að atvinnusköpunin, tækifærin sem gefast, eru það sem hingað til hefur orðið ofan á, við skulum frekar orða það þannig. Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi ræðu minnar að þingflokkur Framsóknarflokksins er ekki einhuga í þessu máli. Það er ekki ein lína í þingflokknum um það hvernig afgreiða eigi málið. Ég reikna með að það verði fleiri en færri sem annaðhvort greiða ekki atkvæði eða verði á móti, en sá er hér stendur hefur vissulega fylgt þessu eftir. Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir var væntanlega að meina það þegar hún nefndi Framsóknarflokkinn og undir því stend ég.

Úr því að ég sé hv. þm. Skúla Helgason hér vil ég, út af þeim orðum sem féllu áðan, segja að að mínu mati er ekkert að málsmeðferð nefndarinnar. Ég vil, eins og ég hef gert hingað til, þakka formanni nefndarinnar fyrir hvernig haldið hefur verið á málinu. Það er rétt, sem hefur komið fram, að ekki voru allir aðilar sem gerðu athugasemdir kallaðir fyrir nefndina og vel má vera að það hafi verið mistök að gera það ekki. En í heildina litið ætla ég alla vega ekki að kvarta yfir því.

Ég get tekið undir margt af því, frú forseti, sem hv. þingmenn Birgitta Jónsdóttir og Þór Saari hafa sagt hér. Á endanum, þegar kemur að atkvæðagreiðslu, munum við líta í eigin barm og vega og meta hvað það er sem ræður för þegar ýtt verður á takkann. Fram að þessu hefur það verið vilji þess sem hér stendur að láta þetta verkefni ná fram að ganga.