138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2010.

542. mál
[23:47]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2010.

Með þessari tillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta samning milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2010. Samningurinn kveður á um allar heimildir aðila til veiða á uppsjávarfiski í lögsögu hvor annars á árinu 2010, gagnkvæma heimild skipa hvors aðila til veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld innan lögsögu hins á árinu 2010 auk þess sem hann kveður á um að hvor aðili skuli veita tveimur skipum sem skráð eru í landi hins aðilans leyfi til tilraunaveiða á túnfiski innan lögsögu sinnar á árinu 2010.

Nefndin hefur fjallað um þetta mál og fékk á sinn fund Tómas Heiðar frá utanríkisráðuneytinu.

Nefndin er einhuga um að leggja til að þessi tillaga verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita Árni Þór Sigurðsson, Valgerður Bjarnadóttir, Birgitta Jónsdóttir, Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar, Ragnheiður E. Árnadóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir.