138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

embætti sérstaks saksóknara og meðferð sakamála.

511. mál
[23:51]
Horfa

Frsm. allshn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Hér liggur fyrir nefndarálit um frumvarp til laga um breytingu á lögum um embætti sérstaks saksóknara og lögum um meðferð sakamála, með síðari breytingum.

Með þessu frumvarpi er lagt til að skilgreint verði með skýrari hætti hvert sé verksvið embættis sérstaks saksóknara gagnvart öðrum handhöfum ákæruvalds. Þá eru lagðar til smávægilegar lagfæringar á lögum um meðferð sakamála ásamt því að kveðið er skýrt á um að tilteknir úrskurðir héraðsdómara verði kæranlegir til Hæstaréttar.

Fyrir nefndinni kom fram að reynslan hefði sýnt að verksvið embættisins hefði verið of þröngt afmarkað og að komið hefði upp skörun milli saksóknara efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, sérstaks saksóknara og setts ríkissaksóknara um valdsvið embættanna. Nefndin telur mikilvægt, miðað við tilgang með stofnun embættis sérstaks saksóknara, að verksvið verði afmarkað með skýrari hætti gagnvart öðrum handhöfum ákæruvalds svo að ekki geti komið til frávísunar væntanlegra dómsmála. Ríkissaksóknari mun áfram skera úr um valdsviðið en er í frumvarpinu einnig fengin heimild til að fela öðrum ákæranda að fara með mál og byggist það á sjónarmiðum um hagkvæmni við rannsókn mála.

Í umfjöllun nefndarinnar fékk nefndin á sinn fund Bryndísi Helgadóttur og Ásu Ólafsdóttur frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti en einnig bárust umsagnir um málið frá ríkissaksóknara, Viðskiptaráði Íslands og ríkisskattstjóra.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Birgir Ármannsson, Ögmundur Jónasson, Vigdís Hauksdóttir og Ólöf Nordal voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en Þór Saari áheyrnarfulltrúi er samþykkur þessu áliti.

Undir álitið rita Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Árni Þór Sigurðsson, Valgerður Bjarnadóttir, Róbert Marshall og Þráinn Bertelsson.