138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

513. mál
[23:53]
Horfa

Frsm. allshn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, nr. 92/1989, með síðari breytingum.

Með þessu frumvarpi er lagt til að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða þess efnis að verði sýslumanni veitt lausn frá embætti, leyfi frá störfum eða hann forfallast af öðrum ástæðum geti ráðherra falið öðrum sýslumanni að gegna embættinu til allt að eins árs í senn. Lagt er til að ákvæðið falli úr gildi 1. janúar 2015.

Nefndin fjallaði um þetta frumvarp sem felur í sér undanþágu frá þeirri meginskyldu að öll störf á vegum ríkisins skuli auglýsa og byggist hún á því að verið er að skoða möguleika til að efla sýslumannsembætti með því að sameina einstök embætti í stækkuðum stjórnsýsluumdæmum en þau eru nú 24 talsins. Nefndin telur að þegar litið er til þeirrar vinnu sem fram undan er við endurskipulagningu sýslumannsembættanna sé eðlilegt að gera þessa undanþágu frá því að skipað sé í sýslumannsembætti sem losna og heimila sýslumanni að gegna fleiri en einu sýslumannsembætti við sérstakar aðstæður. Með því gefist tækifæri til að vinna að endurskipulagningunni í sátt við hlutaðeigandi hagsmunaaðila.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Birgir Ármannsson, Ögmundur Jónasson, Vigdís Hauksdóttir og Ólöf Nordal voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Þór Saari áheyrnarfulltrúi er samþykkur þessu áliti.

Undir álitið rita Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Árni Þór Sigurðsson, Valgerður Bjarnadóttir, Róbert Marshall og Þráinn Bertelsson.