nauðungarsölur.
Virðulegi forseti. Á morgun er 1. júní og í júnímánuði munu nauðungarsölur hefjast að nýju á Íslandi. Þeir frestir og þær seinkanir sem við ákváðum á þinginu renna út í næsta mánuði. Það þýðir jafnframt að fjöldamargar fjölskyldur í landinu munu sjá á eftir eignum sínum á nauðungarsölur og vandi þeirra mun aukast verulega við það. Ef við getum dregið einhvern lærdóm af því sem hér hefur gerst á umliðnum vikum og mánuðum er það einmitt að við í þessum sal megum ekki bregðast því fólki sem er í slíkum fjárhagsörðugleikum sem raun ber vitni. Við verðum að reyna að sameinast um að hjálpa því fólki sem hefur ratað í slíkar fjárhagsþrengingar af ástæðum sem það réði ekki við.
Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hvort hann telji ekki núna ástæðu til að grípa til róttækra aðgerða til að hjálpa því fólki sem er í vandræðum. Í allsherjarnefnd liggur svokallað lyklafrumvarp sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir lagði fram og farið hefur verið fram á það í nefndinni að það mál verði tekið til umræðu. Hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hefur í lagafrumvörpum sínum, sem nú liggja í félags- og tryggingamálanefnd, komið með hugmyndir um einhvers konar lyklaúrræði gagnvart þeim sem eiga fleiri en eina eign. Ég veit að þetta er vandasamt efni til að leysa úr og ég veit að þarna eru á ferðinni gríðarlega flókin laga- og álitamál.
Í ljósi þess að íslenskur gjaldþrotaréttur er ekki smíðaður um það að önnur hver fjölskylda verði gjaldþrota langar mig að spyrja hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hvort hann sjái efni til þess að taka þessi mál nú föstum tökum, skoða t.d. þau úrræði sem ég gerði hér að umtalsefni eða leiðir til þess að taka með einhverjum hætti tímabundið (Forseti hringir.) ákveðin ákvæði gjaldþrotaréttarins úr sambandi meðan við erum að komast í gegnum þessa erfiðleika.