138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

nauðungarsölur.

[12:09]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða fyrirspurn og málefnalega og tek undir með henni um mikilvægi þess að við sameinumst um það í þessum sal að vinna af krafti að úrlausn erfiðra skuldamála. Fjöldamörg frumvörp bíða afgreiðslu, og reynir nú mikið á þingheim að hraða meðferð þeirra í gegnum félags- og tryggingamálanefnd og svo í gegnum þingið. Það fólk sem núna þarf að fá lausn skuldamála sinna á mikið undir því að löggjafargrunnurinn verði lagður í heild þannig að fólk fái þá viðspyrnu sem það nauðsynlega þarf til að tjónið verði ekki meira en óhjákvæmilegt er.

Hv. þingmaður rakti ýmis möguleg úrræði til að taka á erfiðum aðstæðum. Við höfum kosið að fara þá leið að innleiða norrænt kerfi greiðsluaðlögunar til að taka á erfiðum skuldum fólks. Vandinn við lyklafrumvarp eitt og sér er að það tekur ekki á heildarskuldsetningu fólks. Fólk situr eftir mjög skuldsett og þar sem þetta kerfi hefur verið reynt í Bandaríkjunum fylgja því margir samfélagslegir ókostir sem erfitt er að fara ítarlega í í stuttu máli.

Ég tel fulla ástæðu til að við grípum til allra aðgerða sem eðlilegt er að grípa til til að létta fólki leiðina í gegnum þessar þrengingar. Það er mjög mikilvægt að gera allt sem hægt er til að bregðast við þessari stöðu. Við höfum gengið lengra en flestar ríkisstjórnir á Vesturlöndum í því að létta skuldum af fólki í raun. Við látum fólk ekki, eins og ríkisstjórnir annars staðar á Vesturlöndum, borga af skuldum sem eru langt umfram veðrými eigna heldur gerum við þær kröfur á banka að þeir horfist í augu við staðreyndir og lækki skuldsetningu niður í það sem eðlilegt er. Við ætlumst til þess að fólk komist í gegnum þetta á kostnað bankakerfisins. Það er fjármálastofnananna að axla byrðarnar af því að umbreyta skuldsetningu fólks þannig að það geti ráðið við hana.