138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

nauðungarsölur.

[12:11]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Sannleikurinn er sá að tíminn er að renna út. Sannleikurinn er sá að í þessum mánuði munu nauðungarsölur hefjast og sannleikurinn er einnig sá að atvinnulausum fjölgar á Íslandi. Ef svartsýnar spár ASÍ ganga eftir — eða á ég kannski að segja raunsæjar spár? — eykst atvinnuleysi gríðarlega á haustmánuðum. Þetta er sá vandi sem við okkur alþingismönnum blasir.

Það tekur töluverðan tíma að koma áfram þeim úrræðum sem hæstv. ráðherra nefndi áðan og eru núna í vinnslu í félags- og tryggingamálanefnd. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki, í ljósi þessa neyðarástands sem hér er að skapast, ástæðu til að reyna að finna einhverjar leiðir til að hjálpa þessu fólki strax. Ég sé ekki að þær tafsömu leiðir, greiðsluaðlögun og slíkir hlutir, muni hjálpa því fólki sem nú er að missa eigur sínar (Forseti hringir.) og er jafnframt atvinnulaust. Þetta er verkefni okkar á Alþingi. Þessu fólki verðum við að hjálpa.