138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

nauðungarsölur.

[12:13]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Í þeim löggjafarpakka sem bíður afgreiðslu á Alþingi er t.d. frumvarp til laga um umboðsmann skuldara. Við munum breyta greiðsluaðlögunarumsóknum þannig að um leið og sótt er um greiðsluaðlögun komist fólk í skjól og ekki sé hægt að grípa til frekari innheimtuaðgerða. Um leið og frumvarpið kemst í gegnum þingið kemst fólk í það skjól.

Við styrkjum líka möguleika fólks til að vera í húsnæði sínu, halda því og borga eins og það getur í allt að fimm ár. Þetta þarf einfaldlega að klárast í þinginu. Ég kalla eftir því að þingheimur sameinist um að vinna þessi mál hratt. Það stendur ekki á ríkisstjórninni. Við þurfum að ljúka þessum málum hratt í þinginu og við þurfum öll að sameinast um það, forðast málþóf og málalengingar og koma þessum málum hratt og örugglega í höfn.

Við þurfum líka að koma í gegn frumvarpinu um bílalánin. Þannig getum við létt byrðar heimilanna vegna ósjálfbærra bílalána um tugi milljarða og það er mjög mikilvægt að það sé í þessum heildarpakka. Ég kalla eftir samstöðu um það í þinginu að við komum þessum umbótamálum hratt og örugglega í gegn.