138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

gagnaver í Reykjanesbæ.

[12:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í frumvarpi til laga um heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ gerði ESA athugasemdir við lengd ríkisábyrgðarinnar sem stendur til að veita fyrirtækinu. ESA taldi 20 ára ríkisábyrgð fyrir gagnaverið of langa og mæltist til að ríkisábyrgðin yrði stytt í 10 ár.

Eftir 2. umr. um frumvarpið gerist það hér á landi að gagnaverið Thor Data Center er opnað án ríkisábyrgðar og annarra ívilnana frá íslenska ríkinu. Það gjörbreytti landslaginu í þessari atvinnugrein hér á landi og ógildir í raun frumvarpið um sérsamninga á milli ríkisins og Verne Holdings vegna samkeppnissjónarmiða EES-réttar.

Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Er búið að tilkynna ríkisábyrgð til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, í samræmi við 61. gr. EES-samningsins og er ESA búið að samþykkja hana í samræmi við ákvæði EES-samningsins um ríkisaðstoð? Er búið að koma til ESA þeirri vitneskju um gagnaver Thor Data Center að forsendur ríkisábyrgðarinnar fyrir gagnaver Verne Holdings séu þar með brostnar?