138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

strandveiðar.

[12:20]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar lögin um strandveiðar voru sett fyrr á þessu ári var yfirlýstur tilgangur sá að auka jafnræðið í fiskveiðistjórninni og tryggja jafnari tækifæri. Þess vegna kemur mjög á óvart að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skuli framkvæma löggjöfina þannig að hún beinlínis stuðli að ójafnræði og komi í veg fyrir jöfn tækifæri. Við vöruðum við því á sínum tíma að sú svæðaskipting sem hæstv. ráðherra lagði upp með mundi leiða til þess sem núna blasir við hverjum einasta manni. Jafnvel varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar er farinn að sjá þetta. Við vöruðum við þessu og sýndum fram á að þær fyrirætlanir sem lægju þarna til grundvallar mundu leiða til þessa.

Nú hefur það sýnt sig strax á fyrsta mánuði að í raun og veru er verið að færa afla frá Vesturlandi og Vestfjörðum inn á aðra landshluta. Hæstv. ráðherra getur ekki skotið sér undan þessum málum með því að segja að þetta hafi komið á óvart. Þetta blasti við. Við margnefndum þetta í umræðunni. Hæstv. ráðherra skaut sér alltaf undan þessu með því að þykjast ekki vera tilbúinn með reglugerðina sem hann síðan henti fram daginn eftir að lögin voru samþykkt. Hæstv. ráðherra vissi þetta. Það var greinilega meðvituð ákvörðun hæstv. ráðherra að færa afla frá Vesturlandi og Vestfjörðum til annarra landshluta.

Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað liggur þarna til grundvallar? Hvers vegna er þetta stefna hans? Hvers vegna vill hæstv. ráðherra endilega færa þennan afla frá Vestfjörðum og Vesturlandi inn á aðra landshluta? Er hæstv. ráðherra þeirrar skoðunar að þessir landshlutar séu of sælir með sínar aflaheimildir? Vill hæstv. ráðherra útskýra fyrir okkur hvers vegna hann fylgir eftir þeirri stefnu sinni með þessum hætti?

Gjaldþrot þessa fyrirkomulags sem hæstv. ráðherra hefur lagt til grundvallar blasir við. Ætlar hann að breyta þessu núna á næsta tímabili (Forseti hringir.) sem hefst á morgun? Hæstv. ráðherra getur gert það með reglugerð. Ég spyr hæstv. ráðherra: Ætlar hann að gera það eða ætlar hann enn og aftur að sitja við sinn keip?