138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

strandveiðar.

[12:25]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það kemur mér á óvart hvað hæstv. ráðherra er ótrúlega forhertur og forstokkaður í þessari afstöðu sinni. Ég spurði hæstv. ráðherra og bað hann um rökstuðning. Svar hæstv. ráðherra var þögnin. Hann rökstyður málið með þögninni. Þannig er það sem hæstv. ráðherra gerir þetta.

Það liggur fyrir að þetta er meðvituð stefna hæstv. ráðherra. Hann vill flytja afla frá Vestfjörðum og Vesturlandi til annarra landshluta. Það liggur fyrir. Það lá fyrir þegar lögin voru samþykkt. Nú er staðan svona. Ég hef átt samtal við marga útgerðarmenn í strandveiðum síðustu dagana. Þeir hafa sagt mér að ef þetta verður svona áfram muni þeir að sjálfsögðu færa útgerðir sínar, atvinnustarfsemina, frá byggðarlögunum á Vestfjörðum og Vesturlandi eitthvað annað. Er það stefna hæstv. ráðherra? Ætlar hann að halda þessu áfram?

Vörubílar eru líka núna fullir af bátum sem er verið að flytja á milli landshluta til að bregðast við þessari meðvituðu stefnu hæstv. ráðherra um að skerða aflann á Vestfjörðum og Vesturlandi. Hæstv. ráðherra verður að svara þessu skýrt. Hæstv. ráðherra getur ekki látið eins og ekkert sé (Forseti hringir.) nema það sé hans einlæga hugsjónamál að koma í veg fyrir að menn geti með eðlilegum jafnræðishætti stundað þessar fiskveiðar frá Vesturlandi og Vestfjörðum.