138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

aukning aflaheimilda.

[12:36]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég skil alveg áhuga hv. þingmanns á því að gefa út auknar aflaheimildir á þessu fiskveiðiári. Þau lög sem voru samþykkt fyrr á árinu um stjórn fiskveiða sem lutu að því að takmarka flutning á aflaheimildum milli ára hafa það í för með sér að inn á þetta ár kemur töluvert mikið af aflaheimildum sem annars hefðu getað færst yfir á næsta ár. Ef við t.d. miðum við síðasta ár þegar hægt var að flytja allt að 33% af aflaheimildum á milli ára — núna er það dregið niður í 10% — hefði það þýtt að um 4.000 tonn af þorski kæmu inn á ári, 7.000 tonn af ýsu, 4.000 tonn af ufsa og 540 tonn af steinbít. Bara með þessum breytingum koma þó inn á þetta ár auknar heimildir frá því sem áður var, þ.e. eins og gerðist á síðasta ári.

Síðan koma inn 6.000 tonn af botnfiski í gegnum strandveiðarnar sem eru viðbót við það aflamark sem gefið var út. Við fáum á næstu helgi niðurstöður frá Hafrannsóknastofnun um mat á fiskstofnum fyrir undirbyggingu fyrir ráðgjöf á næsta fiskveiðiári sem hefst 1. september. Það verður mjög fróðlegt að sjá hvernig þær tölur standa. Við verðum líka að huga að því að varðandi sérstaklega þorskinn erum við mjög bundin af því að fara að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, (Forseti hringir.) ekki víkja mjög langt frá henni. Við erum líka bundin þar hvað varðar t.d. skoðun markaða erlendis á því hvernig við umgöngumst með sjálfbærum hætti auðlind okkar. (Forseti hringir.) Meginmálið er að fá meiri fisk í sjóinn og þá getum við veitt meira.