staða atvinnumála.
Frú forseti. Það er ánægjulegt að hægt er að segja frá því að samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Vinnumálastofnun sem verið er að vinna úr þessa dagana mælist atvinnuleysi í síðasta mánuði í fyrsta sinn undir 9% frá áramótum eftir að hafa verið um 9,3% bæði í febrúar og mars. Að sjálfsögðu er þetta ánægjuleg vísbending um að hin venjulega árstíðabundna sveifla í atvinnuleysinu verði með svipuðum hætti og vant er og það minnki vor- og sumarmánuðina. (Gripið fram í.)
Ef við lítum til nágrannalandanna er fróðlegt að átta sig á því að í Svíþjóð og Finnlandi er nokkurn veginn nákvæmlega sama atvinnuleysi og hér er þessa mánuðina, en munurinn er því miður sá að þar er það á uppleið en hér á niðurleið. Atvinnuleysi mælist að meðaltali 10% á evrusvæðinu og 9,6% ef tekið er meðaltal 27 Evrópulanda. Á Spáni er atvinnuleysið 20%. (Gripið fram í: Er þetta viðmiðunin ykkar?) (Gripið fram í: Já.) Þetta sýnir — (Gripið fram í.)
Frú forseti. Það liggur illa á sjálfstæðismönnum eftir helgina. [Hlátur í þingsal.] Þetta sýnir að atvinnuleysið sem böl er viðvarandi vandamál og hefur versnað í fjölmörgum löndum sem glímt hafa við efnahagserfiðleika og fjármálahrun.
Það eru algengar ýmsar staðhæfulausar fullyrðingar um að ríkisstjórnin hafi ekkert aðhafst í atvinnumálum. Ég skil það í sjálfu sér ef menn leggja þann skilning í atvinnumál sem hv. málshefjandi gerði hér en hún talaði ekki um neitt nema álver eða stóriðju í ræðu sinni. (Gripið fram í.) Það virðist vera svo að í huga hv. þingmanns sé ekkert annað atvinna en stóriðja.
Atvinnuátak ríkisstjórnarinnar sem snýr t.d. að sumarstörfum gengur vel. Auglýst voru 856 störf og reiknað er með að lokið verði að ráða í þau nú fyrir mánaðamót. Þetta var á vegum Atvinnutryggingasjóðs.
Nýsköpunarsjóður námsmanna fær um fimmfalt meira fjármagn en áður var, hefur samtals 120 milljónir til ráðstöfunar og mun veita um 400 störf í sumar á þeim grunni. Um 70 störf urðu til með sérstökum verkefnum á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, um 70 störf verða í boði eftir því sem á þarf að halda vegna sérstakra aðgerða á eldgosasvæðinu. Bara þessar sérstöku aðgerðir sem miða að störfum í sumar, einkum fyrir ungt fólk, skapa 1300–1500 störf yfir sumarmánuðina. Það er verið að undirbúa að hefja byggingu fangelsis og reiknað er með að það mál geti farið í útboð á næstu þremur mánuðum eða svo. Undirbúningur undir byggingu nýs landspítala gengur samkvæmt áætlun, a.m.k. að því tilskildu að Alþingi afgreiði nauðsynlegt lagafrumvarp þar um sem er hér til umfjöllunar. Þar munu vinna um 30 manns í sumar, um 80 manns á næsta ári, um 360 manns árið 2012 og 700–800 manns árin þar á eftir. Það er verið að undirbúa frumvarp um Framkvæmdasjóð ferðaþjónustunnar sem fái sérstakan tekjustofn sem varið verði til fjárfestingarverkefna og umbóta á fjölsóttum ferðamannastöðum. Undirritaðir hafa verið samningar við fimm sveitarfélög um byggingu hjúkrunarrýma en alls er þar um að ræða um 360 rýma áætlun sem ætti að skapa um 1200 ársverk í landinu.
Í fyrra var breytt reglum um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna viðhalds á íbúðarhúsnæði og reyndar sumarhúsum og húsnæði sveitarfélaganna einnig sem hefur leitt til þess að umfang þeirrar starfsemi hefur snaraukist og er nú svipað eða meira en það var fyrir hrunið. Sú aðgerð er mjög vel heppnuð og þar til viðbótar er frumvarp til umfjöllunar í Alþingi með frekari ívilnunum í þessum efnum til að reyna að hvetja til enn meiri starfsemi á þessu sviði. Boðnar hafa verið út samgönguframkvæmdir til undirbúnings mögulega því að þær verði síðan færðar yfir í einhvers konar gjaldtökufarveg. Framkvæmdir eru að hefjast bæði við Suðurlandsveg og Vesturlandsveg.
Undirbúningur undir samgöngumiðstöð í Reykjavík er kominn mjög langt og verður væntanlega auglýstur á næstunni og sömuleiðis undirbúningur undir stækkun flugstöðvar á Akureyri, Vaðlaheiðargöng eru í undirbúningi og fleira mætti nefna í þeim efnum. Þetta er aðeins lítið brot af því sem telja má upp sem sýnir að sjálfsögðu að ríkisstjórnin hefur gripið til fjölþættra aðgerða til að takast á við þetta ástand að ógleymdum margs konar virkniaðgerðum fyrir það fólk sem þegar er atvinnulaust og þarf að styðja með öllum tiltækum ráðum.
Þróunin í efnahagsmálum er í rétta átt. Gengi krónunnar er að styrkjast, vextir lækka. Dagurinn í dag markar stór tímamót og mun hafa mjög jákvæð áhrif, bæði í þessu efni sem og á möguleika okkar til að tryggja áframhaldandi hagstæða þróun varðandi gengi og vexti. (Forseti hringir.)
Ég tel, frú forseti, engin tilefni til að hafa uppi sérstakan bölmóð. Ástandið er erfitt. Við tökum það öll nærri okkur að atvinnuleysi skuli vera eins og það er í kjölfar (Forseti hringir.) efnahagshrunsins en það er nokkuð sem við verðum einfaldlega að takast á við og vinna úr.