138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

staða atvinnumála.

[12:56]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Atvinnumálin eru eitt mikilvægasta verkefni okkar stjórnmálamanna um þessar mundir, enda eru um 15.000 manns án atvinnu í landinu. Til að mæta þessum vanda þarf hvort tveggja að gerast, ríkisvaldið þarf að koma inn með aðgerðir sem örva framkvæmdir í landinu og jafnframt þarf að skapa efnahagsleg skilyrði fyrir því að atvinnufyrirtæki geti vaxið og dafnað af eigin rammleik. Ríkisstjórnin hefur þegar gripið til aðgerða sem munu skapa 7200 störf, þar af hafa um 2400 störf þegar orðið til frá því að sérstöku átaki í atvinnumálum var hleypt af stokkunum í mars 2009.

Í öðru lagi er hafinn undirbúningur að byggingu nýs landspítala sem mun skapa allt í allt um 3000 störf á næstu árum.

Í þriðja lagi hefur ríkisstjórnin samþykkt áætlun um byggingu hjúkrunarrýma um land allt sem skapar 1200 störf í samstarfi við níu sveitarfélög.

Í fjórða lagi hefur ríkisstjórnin samþykkt að verja auknu fjármagni til viðhalds opinberra bygginga um land allt og áætlar að verja til þess 9–10 milljörðum kr. á næstu þremur árum, þar af 3,5 milljörðum kr. á þessu ári. Þetta átak mun skapa a.m.k. 600 störf.

Hæstv. fjármálaráðherra nefndi að framan ýmsar mannaflsfrekar framkvæmdir sem geta skapað mörg störf til viðbótar, stórframkvæmdir í vegamálum, nýtt fangelsi, samgöngumiðstöð o.fl.

Virðulegi forseti. Við stöndum á tímamótum í atvinnumálum okkar. Hátt hlutfall atvinnulausra gerir það að verkum að skammtímavandinn er stór, en við megum samt ekki missa sjónar af stóra verkefninu sem er að skapa fjölbreyttara atvinnulíf til framtíðar sem treystir ekki á fáar risalausnir sem reyna á þanþol hagkerfis og náttúru heldur byggir á sjálfbærni, umhverfisvænum áherslum og virkjun mannauðsins í sínum fjölbreytilegu myndum.

Ég vil taka eitt lítið dæmi. Hugverkageirinn skilar núna 21% af útflutningstekjum þjóðarinnar og þar þarf að skapa 3000 ný störf á næstu þremur árum. Það er verkefni sem getur fært okkur fram á veginn og (Forseti hringir.) skapað nýjar áherslur í atvinnumálum ef við nýtum tækifærið og verðum með fjölbreyttari menntunarúrræði fyrir þennan hóp.