staða atvinnumála.
Virðulegi forseti. Það var magnað að hlusta á hæstv. fjármálaráðherra segja að það væri engin ástæða til að vera með neinn sérstakan bölmóð yfir íslensku atvinnulífi. Það er sennilega allt í lagi að vera með 9% atvinnuleysi af því að það er þannig í öðrum ríkjum í kringum okkur. Það er ekki ástæða til að vera með bölmóð yfir því að hæstv. ríkisstjórn er komin í yfirlýst stríð við ASÍ og aðila vinnumarkaðarins. Eða telur hæstv. ráðherra ekkert að marka það sem ASÍ er að segja? Það væri fróðlegt að fá það fram hjá honum.
Það var ekki mikill samhljómur með stefnu sveitarstjórnarhluta þessara ríkisstjórnarflokka í aðdraganda kosninga núna. Niðurstaða kosninganna var auðvitað höfnun á atvinnuleysisstefnu ríkisstjórnarinnar. Það er ekki hægt að skilja hana öðruvísi. Það er eitt sem getur bjargað okkur út úr þessari kreppu sem við erum í, aukin atvinna og aukinn hagvöxtur. Orkufrekur iðnaður kemur til með að gegna þar lykilhlutverki og það er alveg magnað að við skulum ekki vera búin að koma fleiri hlutum af stað á þeim vettvangi. Það er alveg magnað að við skulum ekki vera búin að grípa til þess ráðs að auka kvóta við þessar erfiðu aðstæður þannig að fyrirsjáanlegt atvinnuleysi í sjávarútvegi verði ekki að veruleika. Það er alveg magnað að við skulum ekki vera búin að koma í gang þeim samgönguverkefnum upp á 8,2 milljarða sem voru tilbúin á borðinu, búið að hanna þau, búið að bjóða þau út og ekkert annað eftir en að ganga til samninga í mörgum tilfellum og klára útboðið.
Það er alveg merkilegt að ríkisstjórnin skuli þverskallast við að grípa til þeirra nauðsynlegu aðgerða sem eru á borðinu fyrir framan okkur. Það að reyna að segja okkur að allt sé í lagi og ástæðulaust að vera með bölmóð, eins og hæstv. ráðherra orðaði það, er ekki boðlegt þessari þjóð. Verkefnastjórnin Norðurþing komst að merkilegri og gagnlegri niðurstöðu um það til hvers á að grípa í Þingeyjarsýslum í atvinnuuppbyggingu. Hæstv. iðnaðarráðherra svarar því að ríkisstjórnin sé ekki (Forseti hringir.) tilbúin til að hlusta á þá niðurstöðu. Ríkisstjórnin er, (Forseti hringir.) hæstv. forseti, ekki tilbúin til að takast á við þann vanda sem blasir við okkur í íslensku samfélagi. (Forseti hringir.) Sú ríkisstjórn getur ekki setið miklu lengur. (Gripið fram í.)