138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

staða atvinnumála.

[13:03]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Það er ótrúlegt að hlusta á þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Hæstv. fjármálaráðherra fór yfir atvinnuleysistölur. Hér hefur orðið heilt bankahrun og allar spár gerðu ráð fyrir því að atvinnuleysi yrði milli 10 og 20% á þeim tímapunkti sem við stöndum á núna. En hvað er að gerast? Þrátt fyrir að hrunið á Íslandi hafi verið með því stærsta sem við þekkjum er atvinnuleysið þó undir meðaltali í Evrópusambandinu. (JónG: Ásættanlegt?) Það er ekki ásættanlegt, hv. þingmaður, en við erum að glíma við gríðarleg vandamál hérna og atvinnuleysið er að minnka eins og hæstv. fjármálaráðherra kom inn á.

Ég tek undir með hv. þm. Skúla Helgasyni, ég held að það sé mjög mikilvægt að við hefjumst handa við að breyta sýn í atvinnumálum sem byggir á fjölbreyttri atvinnustarfsemi með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Ferðaþjónustan blómstrar hér, sem og landbúnaður og sjávarútvegur. Ríkið hefur komið inn í byggingu hjúkrunarrýma, í viðhald opinberra bygginga en ríkinu er þröngur stakkur sniðinn. Af hverju skyldi það vera? Það er vegna þess að það bú sem núverandi ríkisstjórn tók við býður ekki upp á mikla möguleika í þeim efnum. Við skulum gæta þess á þeim tímum sem við lifum nú að forðast alls kyns gylliboð og horfa heldur til raunverulegrar atvinnuuppbyggingar til framtíðar þar sem aukið verðmæti verður eftir í innlendu hagkerfi. Það er ekki eins og að hv. þingmenn sem hér hafa talað hafi skoðað það á hvaða verði við höfum selt stóriðjunni orku.

Það er ekki eins og að hv. þingmenn átti sig á því að hér hefur orðið heilt bankahrun. Ég bið menn um að tala í raunveruleikanum og horfa til framtíðar. Möguleikar Íslands (Forseti hringir.) byggja á fjölbreyttu atvinnulífi allt í kringum landið en ekki (Forseti hringir.) einföldum risalausnum.