138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

staða atvinnumála.

[13:05]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það hefur lítið farið fyrir þeim atvinnuskapandi mannaflsfreku framkvæmdum sem svo mikið var talað um fyrir síðustu kosningar og áttu, ef ég man rétt, að skapa 7000 störf. Það er eitt, en enn þá meira áhyggjuefni er að ekki skuli hafa verið ráðist í að breyta aðstæðum með þeim hætti að atvinna verði til af sjálfu sér ef svo má segja. Aðstæðurnar eru slíkar að þær hvetja til fækkunar starfa frekar en hitt.

Vextirnir eru eitt. Hér er vaxtastigið slíkt að peningum er haldið úr umferð, haldið frá því að byggja upp vinnu og ríkið borgar fyrir það. Ríkið borgar milljarða á milljarða ofan fyrir að halda fjármagni úr umferð og fyrir vikið eru peningarnir ekki notaðir til að byggja upp vinnu.

Hitt er skuldavandinn. Meðan ekki er ráðist að þeirri rót vandans, tekið á skuldavandanum, verður ekki ráðist í nýja fjárfestingu. Það hafa menn séð í Japan í 20 ár þar sem ekki hefur orðið hagvöxtur vegna þess að ekki er tekið á skuldamálunum. Þessi hætta eða í raun þróun er að verða stöðugt alvarlegri. Fyrirtæki eru rekin áfram víða á tómum kössum og menn reyna að fresta vandanum örlítið lengur, en hvað gerist þegar ekki er hægt að fresta vandanum? Hvað gerist í október á þessu ári? Nú er ríkisstjórnin búin að gefa Alþjóðagjaldeyrissjóðnum yfirlýsingu um að eftir október 2010 verði engar frekari frestanir, engar frekari frystingar eða niðurfærslur lána. Þá er ekki lengur hægt að fresta vandanum. Er ríkisstjórnin búin undir þann skell sem af því leiðir? Ég held að það sé löngu orðið tímabært að menn fari að snúa þessari þróun við vegna þess að fjölgun starfa leiðir af sér enn frekari fjölgun, en sú fækkun sem hefur átt sér stað að undanförnu leiðir af sér enn frekari fækkun starfa.

Við þurfum að breyta neikvæðri keðjuverkun í jákvæða keðjuverkun.